Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þungt högg fyrir samfélagið og sveitarfélagið allt“

25.06.2020 - 19:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Sveitarstjóri Norðurþings segir uppsagnirnar hjá PCC þungt högg fyrir samfélagið. Slökkt verður á báðum ofnum kísilverksmiðjunnar á Bakka og stærstum hluta starfsfólks sagt upp. Stefnt er á að hefja framleiðslu á ný þegar betur árar á markaði.

Fyrirtækið ber því við í yfirlýsingu að Covid-19 faraldurinn hafi raskað heimsmarkaði með kísilmálm og haft veruleg neikvæð áhrif á verð og eftirspurn. Ákveðið hafi verið að stöðva framleiðslu tímabundið, þangað til markaðurinn nær sér á strik. Slökkt verður á báðum ofnum verksmiðjunnar í lok júlí.

80 starfsmönnum sagt upp í dag

Rúnar Sigurpálsson, forstjóri PCC Bakki Silicon, gaf ekki kost á viðtali í dag. Hann segir um 80 starfsmönnum hafa verið sagt upp í dag. Um 30 starfi áfram við viðhald og endurbætur í verksmiðjunni á meðan framleiðslan liggi niðri.  Áætlað er að því ljúki í ágústlok. Rúnar væntir þess að framleiðsla geti hafist á ný um áramót og þá verði reynt að endurráða sem flesta. 

default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Rekstur kísilvers PCC hefur verið þungur undanfarna mánuði

Einn af máttarstólpum atvinnulífs í Norðurþingi

„Þetta er auðvitað þungt högg fyrir samfélagið hér á þessu svæði og sveitarfélagið allt, að heyra af þessum fréttum,“ segir Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings. Fyrstu viðbrögð eru þau að hugsa til starfsmanna og fjölskyldna þeirra sem eru að missa vinnuna núna. Hér er auðvitað um að ræða fyrirtæki sem er einn af máttastólpum í atvinnulífinu hér á okkar svæði.“

„Leggjum alla áhreslu á að halda í þetta fólk“

Aðspurður um hvernig hann meti það að halda í það fólk sem nú hefur misst vinnuna, segir Kristján það vera verkefnið framundan. „Við þurfum öll að leggjast yfir að við séum ekki að horfa upp á fólksflótta héðan. Þannig að við þurfum að leggjast saman yfir það hvað sé hægt að gera til þess að brúa þetta bil þar til að verksmiðjan fari af stað ftur. Og við munum auðvitað leggja alla áherslu á það að halda í þetta góða fólk og alla sem hér búa.“

Erfiður rekstur hjá PCC Bakki Silicon

Áður hefur komið fram að rekstur PCC á Bakka hefur verið erfiður og hafa fimm lífeyrissjóðir og Íslandsbanki lækkað virði hlutafjár síns í kísilverinu um tæpa tvo milljarða vegna óvissu um starfsemi þess.