Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Talið að 6 til 10 manns hafi verið inni í húsinu

25.06.2020 - 22:06
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RUV
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri, telur að sex til tíu manns hafi verið inni í húsinu sem varð eldi að bráð á horni Vesturgötu og Bræðraborgarstígs í dag. Endanleg tala liggur þó ekki fyrir.

Jón Viðar segir að verið sé að rífa húsið og að til standi að vakta það í nótt. Enn eru glæður í húsinu.

Hann segir að verkefnið í dag hafi verið með þeim erfiðari sem slökkviliðið hefur þurft að glíma við. 

Jón Viðar segir að eldurinn hafi verið gífurlega mikill. „Við stóðum frammi fyrir því strax í upphafi að þurfa að hörfa út úr ákveðnum rýmum og það litar dálítið okkar slökkvistarf,“ segir hann. 

Hann segir að nærliggjandi húsum stafi ekki hætta vegna eldsvoðans. Hins vegar kunna íbúar í nágrenninu að finna fyrir óþægindum vegna reyks. „Menn þurfa bara að hafa lokaða glugga og svo er gamalt ráð að kynda upp í húsinu til þess að skapa yfirþrýsting í viðkomandi rými,“ segir Jón Viðar.

Jón Viðar segir að ekki hafi verið kannað hvort reykskemmdir hafi orðið á húsum í nágrenninu. Hann segir talsverðar líkur á því enda hafi reykurinn verið mikill. 

Húsið varð alelda á skömmum tíma og sjónarvottar lýstu því að íbúar hafi þurft að stökkva út um glugga hússins. Fjórir voru fluttir á gjörgæslu.