Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Samningur um flugferðir til Boston framlengdur

25.06.2020 - 13:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Samgönguráðuneytið hefur framlengt samning við Icelandair um lágmarksflug til Bandaríkjanna til 8. ágúst. Flogið verður tvisvar í viku hið minnsta. Ráðuneytið og flugfélagið sömdu fyrst um miðjan maí og var þá einnig samið um að tvær flugferðir á viku til Stokkhólms og Lundúna. Í tilkynningu ráðuneytisins segir að ekki sé lengur talin þörf á að semja um lágmarksflug á þessa tvo staði þar sem flugsamgöngur hafi tekið við sér að nýju.

Í samningnum er ákvæði um að unnt sé að framlengja hann í tvígang, fyrst til 8. ágúst og aftur til 19. september. „Allar tekjur Icelandair af flugi til Boston munu lækka greiðslur vegna samningsins,“ segir jafnframt í tilkynningu ráðuneytisins. Viðskiptablaðið hefur greint frá því að Icelandair fái allt að 300 milljónir króna vegna samningsins en allt að 500 milljónir verði hann framlengdur sem nú er raunin.

Ísland er eitt 26 aðildarríkja Schengen. Þau hafa til þessa flest einungis heimilað ferðalög innan Schengen-svæðisins en fyrir mánaðamótin er þess vænst að gefinn verði út listi ríkja fyrir utan Schengen þaðan sem fólk má koma inn á Schengen-svæðið. Ekki er búist við því að Bandaríkin verði á þessum lista. Evrópusambandið vill að aðildarríki Schengen fari að listanum en þeim verði þó frjálst að gefa út sinn eiginn lista þar sem sum lönd af Evrópusambands-listanum verði útilokuð.

Ísland hefur verið með meiri undanþágur fyrir Bandaríkjamenn að koma hingað en eru fyrir Íslendinga að fara utan. Þannig fær fólk að koma hingað frá Bandaríkjunum til dæmis ef erindið tengist vinnu, námi eða fjölskyldu. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að íslensk stjórnvöld hefðu reynt að fá upplýsingar frá bandarískum yfirvöldum um hvernig þau hygðust hátta málum gagnvart Íslandi en þau svör hefðu ekki borist.