Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Samningur flugfreyja og Icelandair í höfn

25.06.2020 - 04:08
Mynd með færslu
 Mynd: FFÍ
Icelandair og Flugfreyjufélag Íslands hafa skrifað undir nýjan kjarasamning sem gildir til 30. september 2025.

Í yfirlýsingu frá Icelandair segir að samningurinn sé í samræmi við markmið um að auka vinnuframlag og sveigjanleika fyrir félagið. Jafnframt hafi ráðstöfunartekjur flugfreyja og flugþjóna verið tryggðar.

Að sögn Boga Nils Bogasonar forstjóra Icelandair er um einföldun frá fyrri samningi að ræða. Hann segir afar ánægjulegt að samningar hafi náðst. Þeir séu mikilvægur þáttur í fjárhagslegri endurskipulagningu flugfélagsins.

Flugfreyjufélagið segir í yfirlýsingu að það hafi komið til móts við Icelandair í því gjörbreytta landslagi sem blasi við fyrirtækinu. Þannig verði Icelandair gert mögulegt að auka samkeppnishæfni sitt og sveigjanleika.

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, kveður starfsöryggi alltaf hafa verið einn mikilvægasta þáttinn í viðræðunum. Hins vegar hafi flugfreyjur og flugþjónar ætíð verið tilbúin til að leggja sitt lóð á vogarskálarnar og mæta Icelandair á erfiðum tímum.

Samningurinn verður kynntur fyrir félagsmönnum Flugfreyjufélags Íslands næstkomandi föstudag og verða greidd um hann atkvæði í kjölfarið.