Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ragnheiður Elín sagði upp ári eftir ráðningu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ragnheiður Elín sagði upp ári eftir ráðningu

25.06.2020 - 13:06

Höfundar

Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur sagt lausu starfi verkefnastjóra Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna í Reykjavík 2020. Tilkynnt var um ráðningu Ragnheiðar Elínar í starfið í byrjun júlí í fyrra.

Ragnheiður Elín greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni. Þar segir hún að ástæða uppsagnarinnar hafi verið samstarfsörðugleikar við formann stjórnar verkefnisins. 

Ragnheiður Elín sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn 2007-2017 og  var ráðherra 2013-2017.

Arna Schram, formaður stjórnar verkefnisins, staðfestir í samtali við Fréttastofu að stjórnin hafi fallist á uppsögn Ragnheiðar Elínar. „Hún sendi stjórninni ósk um að láta af störfum fyrr í vikunni og við féllumst á það,“ segir Arna. „Ég ætla ekki að tjá mig um málið að öðru leyti né samstarfið við Ragnheiði Elínu. Verkefnið er aðalatriðið og höfum þegar ráðið verkefnastjóra í stað Ragnheiðar Elínar og munum ráða fleira fólk þegar nær dregur, eins og alltaf hefur staðið til.“

Hlutverk verkefnastjórans er að vinna að undirbúningi hátíðarinnar í samráði við stjórn verkefnisins og Evrópsku kvikmyndaakademíuna; leiða saman samstarfsaðila, halda utan um samningagerð, afla styrkja, og vinna drög að styrktar- og kynningarstefnu verkefnisins. Þegar tilkynnt var um ráðningu Ragnheiðar Elínar kom fram að það hefði verið mat stjórnarinnar að Ragnheiður Elín uppfyllti best þær hlutlægu og huglægu kröfur sem settar voru fram í starfslýsingu.

Gert var ráð fyrir að viðburðurinn myndi laða til sín erlenda gesti og blaðamenn víða að.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Ragnheiður Elín ráðin verkefnastjóri EFA

Stjórnmál

Ragnheiður Elín mátti ekki bera lánsskartgripi

Innlent

Ragnheiður Elín í stjórn Landsvirkjunar

Innlent

Ragnheiður Elín ráðin sérfræðingur í orkumálum