Nýjum COVID-19 tilfellum fjölgar á ný í Evrópu

25.06.2020 - 12:12
epa08503826 Paramedics of a mobile testing unit of the German Red Cross and the German army (Bundeswehr) prepare for collecting Covid-19 tests from employees of Toennies in a quarantined building in the district Suerenheide in Verl, Guetersloh, Germany, 23 June 2020. According to media reports, over 1,500 Toennies employees at the Rheda-Wiedenbrueck plant have tested positive for the SARS-CoV-2 coronavirus that causes the pandemic COVID-19 disease.  EPA-EFE/FRIEDEMANN VOGEL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
COVID-19 tilfelli í Evrópu voru fleiri í síðustu viku en vikunni á undan í fyrsta sinn í langan tíma, segir Alþjóðaheilbrigðisstofnunin. Hætta sé á að veiran breiðist út að nýju verði ekki tekið fast á nýjum hópsýkingum.

Á sama tíma og faraldurinn fer vaxandi í Bandaríkjunum og Rómönsku Ameríku hefur nýjum tilfellum farið fækkandi í Evrópu þar til nú. Hans Kluge, svæðisstjóri Evrópu hjá Alþjóðaheilbrigðsstofnuninni, sagði á blaðamannafundi í morgun að tilfellin í síðustu viku í Evrópu hefðu verið fleiri en í vikunni á undan. Það hafi ekki gerst mánuðum saman.

Kluge benti á að hann hefði varað við því vikum saman að veiran gæti blossað upp að nýju ef slakað yrði á takmörkunum. Nú hafi það komið á daginn. Nýjum tilfellum hafi fjölgað í þrjátíu löndum síðustu tvær vikur og í ellefu þeirra hafi aukningin verið svo mikil að verði ekki tekið fast á henni gæti hún reynt verulega á heilbrigðiskerfið enn og aftur.

Kluge greindi ekki frá því hvaða lönd þetta væru en gera má ráð fyrir að Þýskaland og Portúgal séu þarna á meðal. Þar hafa nýlega komið upp hópsýkingar.

Kluge tók þó fram að tekið væri á hópsýkingum af festu þegar þær komu upp, og nefndi þar sérstaklega Pólland, Þýskaland, Spán og Ísrael.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi