Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ljóst að þetta mun hafa mikil áhrif á úrvalsdeildina

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Ljóst að þetta mun hafa mikil áhrif á úrvalsdeildina

25.06.2020 - 20:02
Leikmaður Breiðabliks í úrvalsdeild kvenna í fótbolta er með COVID-19 smit og hefur fjöldi manns nú verið settur í sóttkví. Ljóst er að þetta muni hafa töluverð áhrif á næstu umferðir úrvalsdeildarinnar.

Leikmaðurinn kom til Íslands frá Bandaríkjunum þann 17. júní og fór í sýnatöku en sýnið reyndist þá neikvætt. Hún hafi þó verið í nánd við smitaðan einstakling erlendis, farið aftur í sýnatöku og þá reyndist hún smituð af veirunni. Ljóst er að allir sem hafa verið í samskiptum við hana síðustu tvo sólarhringa þurfa að fara í sóttkví sem þýðir að allir leikmenn Breiðabliks og þjálfarateymi liðsins verða í sóttkví í 14 daga. Breiðablik mætti KR í deildinni í fyrradag og samkvæmt upplýsingum mun leikmannahópur KR einnig fara í sóttkví. Smitrakning er enn í gangi og ljóst að flækjustigið er ansi mikið.

„Við fengum niðurstöðurnar áðan og þá fór smitrakning í gang og hún teygir sig alveg aftur í leikinn sem var á þriðjudaginn og aðeins aftar en það þannig það eru ansi margir að fara í sóttkví á meðan að við erum að ná utan um þetta, svo sjáum við aðeins til eftir einhverja daga þegar við vitum nákvæmlega hvernig samskiptin voru og annað hvort allir þurfi að vera í sóttkví eða það sé hægt að losa einhverja úr sóttkví, við verðum bara að bíða og sjá til,“ segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn ríkislögreglustjóra.

Sýni hennar í Leifsstöð var neikvætt í upphafi en greinist nú jákvætt. Víðir segir að við þeirra vinnu verði þau að gera ráð fyrir að hún geti hafa smitað einhvern „Allavega okkar viðbrögð miðast öll við það. Eins og við höfum sagt allan tímann þá er það ekki hundrað prósent þótt fólk mælist neikvætt við landamærin og þetta er áminning fyrir okkur hvernig við eigum að umgangast þessa pest.“

Þá segir hann þá dómara sem dæmdu leik Breiðabliks og KR þurfa að fara í sóttkví. Verið sé að skoða hverja þeir hafi verið í samskiptum við. „Við höfðum samband við KSÍ í dag og upplýstum þá um að dómararnir þurfi að fara í sóttkví og ég geri ráð fyrir að KSÍ sé búið að setja sig í samband við þá og það er bara smitrakning í gangi en ef þeir mælast ekki jákvæðir þá þarf enginn að fara í sóttkví útaf þeim,“ segir Víðir.

Breiðablik mætti Selfossi í annarri umferð, þann 18. júní. Þurfa þær að fara í sóttkví? „Nei, ekki samkvæmt skoðun okkar í augnablikinu, þá er Selfoss ekki inni í þessu,“ segir Víðir að lokum.

Viðtalið við Víði í heild má sjá í spilaranum hér að ofan.