
Kallar eftir afstöðu Katrínar til kærumáls Lilju
Í færslunni bendir Hanna Katrín á að forsætisráðherra fari með jafnréttismál eftir að hafa tekið málaflokkinn til sín í upphafi kjörtímabilsins.
„Daginn sem lögbrot menntamálaráðherra urðu ljós, 2. júní sl., beindi ég spurningu um málið til forsætisráðherra þar sem menntamálaráðherra var ekki í þingsal. Forsætisráðherra tók við það tilefni sérstaklega fram að menntamálaráðherra þyrfti auðvitað að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum í þessu máli og að hún yrði vafalaust til svara í þingsal síðar til að reifa þau,“ segir Hanna Katrín.
Þessi spá forsætisráðherra hafi ekki gengið eftir. Menntamálaráðherra hafi sinnt ýmsum störfum síðustu vikur og komið á þingflokksfundi Framsóknarflokksins. Hún hafi aftur á móti ekki mætt í þingsal í fyrirspurnartíma þingmanna eftir að þetta mál kom upp.
„Þær eru því nokkuð margar spurningarnar sem enn er ósvarað varðandi þetta mál. Sú stærsta er þó; ríkir sátt í ríkisstjórninni um þessar áherslur í jafnréttismálum?“ skrifar Hanna Katrín.