Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kallar eftir afstöðu Katrínar til kærumáls Lilju

Mynd með færslu
Hanna Katrín Friðriksson Mynd: Birgir Þór Harðarson
„Það eru tíðindi að menntamálaráðherra ætli að höfða dómsmál á hendur konu sem gerði athugasemd við embættisfærslu hennar og taldi rétt sinn brotinn. Raunar liggur fyrir úrskurður þess efnis að svo hafi verið, að ráðherrann hafi brotið jafnréttislög gagnvart konunni.“ Þetta skrifar Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar á Facebook-síðu sína. Hanna Katrín segist þar velta fyrir sér afstöðu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra til málsins og hvort það hafi verið rætt í ríkisstjórn.

Í færslunni bendir Hanna Katrín á að forsætisráðherra fari með jafnréttismál eftir að hafa tekið málaflokkinn til sín í upphafi kjörtímabilsins.

„Daginn sem lögbrot menntamálaráðherra urðu ljós, 2. júní sl., beindi ég spurningu um málið til forsætisráðherra þar sem menntamálaráðherra var ekki í þingsal. Forsætisráðherra tók við það tilefni sérstaklega fram að menntamálaráðherra þyrfti auðvitað að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum í þessu máli og að hún yrði vafalaust til svara í þingsal síðar til að reifa þau,“ segir Hanna Katrín.

Þessi spá forsætisráðherra hafi ekki gengið eftir. Menntamálaráðherra hafi sinnt ýmsum störfum síðustu vikur og komið á þingflokksfundi Framsóknarflokksins. Hún hafi aftur á móti ekki mætt í þingsal í fyrirspurnartíma þingmanna eftir að þetta mál kom upp.

„Þær eru því nokkuð margar spurningarnar sem enn er ósvarað varðandi þetta mál. Sú stærsta er þó; ríkir sátt í ríkisstjórninni um þessar áherslur í jafnréttismálum?“ skrifar Hanna Katrín.