Instagram-ferðalangar hrifnir af Hornströndum

Mynd: Steenaire / Flickr

Instagram-ferðalangar hrifnir af Hornströndum

25.06.2020 - 09:19

Höfundar

Illa undirbúnir Instagram-ferðalangar spyrja ráðvilltir um næstu verslun, jafnvel án matar og regnfata.

„Fyrir um fimmtán árum voru það fyrst og fremst vanir ferðalangar sem komu en núna er þetta mikið Instagram-kynslóðin,“ segir Kristín Ósk Jónasdóttir, landvörður og sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.  

Hún segir ferðalangana í raun leita uppi bakgrunn að ljósmynd, eins konar sviðsmynd, frekar en náttúruupplifun. „Við erum að kljást við það, eins og mörg önnur svæði á norðlægum slóðum, að fólk er að sækja lengra frá hefðbundnum stöðum. Við erum að fá fleiri sem hafa ekki undirbúið ferðina sína og eru kannski bara komnir til Íslands því þeir sjá einhverja flotta mynd. Við höfum verið að taka á móti fólki sem er ekki með mat með sér, mjög slæm tjöld og spyr hvar búðin sé eða hvar þau komist í sturtu.“ 

Kristín bendir á þetta sé í raun mjög hættulegt. „Fólk sem ferðast um Hornstrandir er ekki með umfram magn af fæðu með sér, til að deila með öðrum. Við þurfum að passa upp á þetta fólk fari ekki út af tjaldstæðinu til að sníkja hjá öllum hinum.“ 

Rætt var við Kristínu í Samfélaginu á Rás1 og hægt er að hlusta á samtalið í spilaranum hér að ofan.