Illa tekið í víðtækari landamæraopnun á Íslandi

25.06.2020 - 10:40
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Evrópusambandið hyggst tilgreina þau lönd sem ríkin mega opna landamæri sín fyrir þann 1. júlí. Gert er ráð fyrir að öll aðildarríki fari eftir sömu viðmiðum. Dómsmálaráðherra segir að sambandið taki illa í hugmyndir um víðtækari opnun ytri landamæra Íslands.

Ríkin vinna sameiginlega að því að skilgreina ákveðin viðmið sem lönd þurfa að uppfylla til að flokkast sem öruggur áfangastaður fyrir ríkisborgara í aðildarríkjunum. Listi yfir þessi lönd er væntanlegur á næstu dögum samkvæmt Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, sem var gestur í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.

Tekið verði mið af því hve mörg smit séu í landinu miðað við fjölda íbúa ásamt fleiri atriðum. „Það það má telja mjög líklegt að Bandaríkin séu ekki þar á lista miðað við stöðuna í dag,“ sagði Áslaug Arna. Smittíðni sé það há.

Áslaug Arna lýsti vonbrigðum yfir að Bandaríkin opnuðu ekki landamæri sín fyrir Íslendingum. Hún hefði vonast til að mögulegt yrði að opna íslensk landamæri fyrir þeim um mánaðamótin.

Færði rök fyrir víðtækari opnun íslenskra landamæra

„Við höfum ítrekað að við erum að skima alla eins og stendur. Þá höfum við ekki gert upp á milli landa innan Schengen og því kannski opnað landamærin okkar betur að einhverju leyti en önnur lönd sem ennþá eru að flokka ríki innan Schengen,“ sagði Áslaug. Einnig hafi verið bent á að Ísland gæti sinnt brottfarareftirliti á landamærunum fyrir Schengen-svæðið og haft þannig hlutverk í að framfylgja ferðatakmörkunum fyrir svæðið en verið samtímis undanskilið þeim. 

Það liggi hins vegar ljóst fyrir að Evrópusambandið leggi áherslu á að aðildarríki Schengen-svæðisins farið eftir væntanlegum lista. „Það hefur ekki verið vel tekið í það að við séum að boða, né önnur lönd, meiri opnanir. Búið er að ýja að því að það geti verið lokað á okkur inni á þessu svæði.“

Fréttin var uppfærð 12:06

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi