Forðaði sér á rafhlaupahjóli undan mannýgum hundi

25.06.2020 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Ungur drengur á Eskifirði þurfti að gefa allt í botn á rafhlaupahjóli sínu til að sleppa undan mannýgum hundi fyrr í mánuðinum. Talið er að þetta sé sami hundur og var á eins konar skilorði eftir að hafa bitið konu í fyrra en eigandinn hafnar því að hundurinn hafi verið laus.

Óttast hund í nálægu húsi

Móðir drengsins setti sig í samband við fréttastofu og hefur áhyggjur af því að fólki stafi hætta af hundinum. Þegar hann sé hafður úti í garði rjúki hann upp, rykki í ólina og gelti mjög ógnandi að fólki sem gengur fram hjá. Hundurinn réðst á konu í fyrra og beit hana aftan í lærið. Hann hlýddi ekki skipun eiganda síns um að hætta og eigandinn þurfti að slást við mannbítinn til að ná honum af konunni. Málið var kært til lögreglu sem taldi ekkert saknæmt hafa átt sér stað.

Dýraeftirlit Fjarðabyggðar vildi til að gæta meðalhólfs ekki láta aflífa hundinn. Samkæmt upplýsingum þaðan var eigandinn skikkaður með hundinn í atferlismat. Eigandinn vildi fá að þjálfa hundinn til að ná tökum á honum og eftir endurtekið mat var hundaleyfið endurnýjað en með skilyrðum. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu eru skilyrðin meðal annars hann eigi alltaf að vera í bandi og undir eftirliti eiganda. 

Eigandinn segist fylgja skilyrðum hundaleyfis

Fyrir um tíu dögum gerist það svo að drengur sem býr í nálægu húsi er á ferð á rafmagnshlaupahjóli sínu þegar hundur tekur að elta hann og gelta illilega. Drengurinn telur sig þekkja óargadýrið, gefur allt í botn á hjólinu og kemst undan. Málið var tilkynnt til Fjarðabyggðar enda mögulega brot á skilyrðum fyrir hundaleyfinu. Það var sent til heilbrigðiseftirlitsins sem segir eigandann hafna því að það gæti hafi verið umræddur hundur sem elti drenginn. Ekki er hægt að fara með málið lengra fyrr en það fæst á hreint hvaða hundur var þarna á ferð.

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi