Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fimm íbúar hafa fengið húsaskjól hjá Rauða krossinum

Mynd með færslu
 Mynd: Gréta S. Guðjónsdóttir
Fimm íbúar hússins sem brann á horni Vesturgötu og Bræðraborgarstígs í Vesturbæ Reykjavíkur í dag hafa fengið inni hjá Rauða krossinum. Fólkið er allt af erlendu bergi brotið. Sex voru flutt á sjúkrahús frá brunanum og er á gjörgæslu.

Rauði krossinn veitti um tíu manns áfallahjálp í kjölfar brunans. Þeirra á meðal eru sjónarvottar á vettvangi og aðstandendur fólksins sem var flutt á sjúkrahús. Áfallahjálp var bæði veitt á vettvangi brunans og á sjúkrahúsinu, auk þess sem að einhverjir höfðu samband við Rauða krossinn.

Ekki hafa fengist upplýsingar um líðan fólksins sem flutt var á sjúkrahús. Rannsókn á vettvangi er hafin og rústir hússins sem brann verða vaktaðar í nótt. Þrír voru handteknir á vettvangi brunans. Lögreglan er að kanna hvaða tengsl þau höfðu við vettvanginn.

Sex bjuggu á efstu hæð hússins sem brann. Fjögur sluppu út úr húsinu ýmist með því að stökkva út um glugga eða með aðstoð slökkviliðs. Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn gat ekki sagt til um hvar tveir af sex íbúum væru niðurkomnir þegar hann var spurður í fréttum sjónvarps í kvöld.