Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki fjárheimildir til að semja við Klíníkina

25.06.2020 - 17:30
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Biðlistar eftir læknisaðgerðum til dæmis liðskiptaaðgerðum hafa lengst meira vegna heimsfaraldursins. María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga segir að ekki séu fjárheimilidir til að semja við Klíníkina um að gera aðgerðir. Skoðað verði í næsta mánuði hvort aftur verði farið að senda fólk til útlanda í læknisaðgerðir.

Gat ekki beðið 

Samkvæmt lögum eiga sjúklingar hér á landi rétt á því að fara í aðgerðir erlendis ef þeir hafa beðið lengur en þrjá mánuði. Ferðirnar hafa legið niðri vegna heimfaraldursins. 

Biðlistar hafa lengst hér á landi og bíða til dæmis 830 eftir liðskiptaaðgerðum á Landspítalanum. 

Kona sem er illa haldin af slitgigt og átti að fara til Svíþjóðar í aðgerð, gat ekki beðið og gekkst undir liðskiptaaðgerð í Klíníkinni í Ármúla. Sjúkratryggingar hafa ekki viljað greiða fyrir aðgerðina.

María segir að ef semja eigi við Klíníkina eða einhvern annan um að auka framboð á liðskiptaaðgerðum verði að liggja fyrir fjármagn frá Alþingi.

„Og eins og staðan er núna að þá er búið að ráðstafa því fé sem var á fjárlögum. Og það er í rauninni engin sérstök fjárheimildir til staðar sem gerir það kleift að semja við Klíníkina.“ 

Einungis brýn meðferð í útlöndum

Nokkur sjúkrahús sinni liðskiptaaðgerðum einkum Landspítalinn og sjúkrahúsin á Akureyri og Akranesi. Einnig eru heimildir til að fara í liðskiptaaðgerðir í útlöndum ef biðtími er orðinn of langur. 

„Og það er á sérstökum fjárlagalið sem ekki er unnt að nota til að greiða fyrir þjónustu hér heima. Það er í rauninni eyrnamerkt þjónustu sem fram fer erlendis.“
 
Sóttvarnayfirvöld töldu ekki forsvaranlegt að senda fólk sem þurfti að fara í liðskiptaaðgerð til útlanda á meðan faraldurinn var í hámarki. Undanfarið hafa einungis þeir sem þurftu sérstaka brýna meðferð farið. Það sé hins vegar í reglulegri enduskoðun. 

„Við erum í reglulegum samskiptum við sóttvarnayfirvöld og einmitt til þess að opna þessa kanala um leið og það er óhætt. Hefur þú hugmynd um hvenær það gæti orðið? Við tökum það aftur upp í júlí.“
 
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV