Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ástralía: Herinn kallaður til aðstoðar vegna Covid 19

25.06.2020 - 09:02
epa08507681 Paramedics perform COVID-19 disease tests in Broadmeadows after Victoria State Government Health and Human Services officials knock on doors to check if people have any symptoms of and would like a test, in Melbourne, Australia, 25 June 2020. The Australian Defence Force (ADF) and other states have been called in to help Victoria tackle its rising number of coronavirus cases.  EPA-EFE/DANIEL POCKETT AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
Frá sýnatöku í Melbourne. Mynd: EPA-EFE - AAP
Þúsund hermenn hafa verið sendir til Melbourne í Viktoríu í Ástralíu vegna COVID-19 hópsýkingar sem kom upp í fylkinu. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir að veiran breiðist frekar út.

Áströlum gekk vel að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar þegar hún stakk sér þar niður. Rúmlega 7.400 tilfelli hafa greinst, sem er minna en meðal flestra álíka fjölmennra þjóða. Í maí var takmörkunum víðast hvar aflétt.

En fyrir tæpum tveimur vikum fjölgaði tilfellum skyndilega í Viktoríu, næstfjölmennasta fylkinu í landinu. Síðustu viku hafa 150 tilfelli greinst þar, þar af þrjátíu og sjö síðasta sólarhring. Þetta er mesta fjölgun tilfella í tvo mánuði í landinu. Nokkrar hópsýkingar hafa meðal annars komið upp í Melbourne.

Linda Reynolds varnarmálaráðherra Ástralíu tilkynnti í morgun að þúsund hermenn yrðu sendir til Viktoríu á næstu dögum. Þeirra starf verður að halda fólki sem hefur komið erlendis frá í sóttkví, og koma upp aðstöðu fyrir sýnatöku og læknisaðstoð. Svo margir hermenn hafa ekki verið kallaðir út áður í landinu vegna veirunnar. Að auki hafa ríkisstarfsmenn gengið í hús þar sem tilfellin eru flest til að hvetja fólk til að fara í skimun.

Með þessu á að finna þá sem eru veikir og einangra, rétt eins og gafst vel þar þegar faraldurinn var í hámarki, og koma þannig í veg fyrir að önnur bylgja rísi.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV