Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Á gjörgæslu eftir eldsvoða við Bræðraborgarstíg

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Fólkið sem var flutt slasað á sjúkrahús frá brennandi húsi á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu í dag er allt á gjörgæslu. Slökkvistarfi í húsinu er ekki lokið og mikil vinna eftir. Slökkvilið hefur náð fullri stjórn á útbreiðslu eldsins.

„Staðan er þannig að við erum búin að ná fullri stjórn á útbreiðslunni. En það er mikil vinna eftir við að rjúfa þak og fullslökkva. Það er mjög mikil vinna eftir,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við fréttastofu.

„Ég heyrði frá mínum mönnum að það væri á gjörgæslu,“ sagði Jón Viðar spurður hvernig ástand þeirra sem voru flutt á slysadeild væri.

Þak hússins hefur verið rofið að hluta. Slökkvilið er nú að klára að rjúfa veggi og þil hússins. Þetta þurfa slökkviliðsmenn að gera úr körfubíl enda eru gólf hússins hrunin eða mjög ótrygg eftir eldsvoðann.

Sjónarvottar segja að tvennt hafi kastað sér út um glugga á efri hæðum þessa þrílyfta húss við Bræðraborgarstíg 1 í Vesturbæ Reykjavíkur. Jón Viðar sagði fréttastofu að ekki væri vitað hversu margir hafi verið í húsinu en reykkafarar unnu í logandi húsinu og leituðu í öllum rýmum.

Reyk lagði austur yfir borgina og reykjarlykt fannst víða. Lögregla hvatti fólk í nágrenninu til þess að loka gluggum og kynda í húsum sínum til þess að reykur og sót bærist ekki inn.