Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

350 skjálftar frá miðnætti og Grímsvötn enn í gjörgæslu

Mynd með færslu
Grímsvötn. Mynd: Katla Líndal
Um 350 skjálftar hafa mælst á jarðskjálftamælum Veðurstofu Íslands frá miðnætti. Stærsti skjálftinn var 3,2 og varð hann 30 kílómetra norðaustur af Siglufirði, á Tjörnesbrotabeltinu. Þar er virknin nú mest. Heldur hefur dregið úr virkni í Grímsvötnum en enn er fylgst grannt með þeim.

Þetta segir Bryndís Ýr Gísladóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands. „Það hafa engar hræringar verið í Grímsvötnum síðasta sólarhring, en þar er ennþá virkni. Við erum með varann á og svæðið er enn í gjörgæslu.“

Vísindaráð almannavarna fundaði um Grímsvötn 18. júní. Þá hafði skjálftavirkni farið hægt vaxandi í um mánuð. Leitt var líkum að því að hlaup gæti orðið þar á næstu vikum eða mánuðum en það yrði að öllum líkindum lítið.

Flestir skjálftanna undanfarinn sólarhring voru á Tjörnesbrotabeltinu en einnig var nokkuð um skjálfta á Reykjanesskaga og á Reykjaneshrygg við Eldey. „Þar voru, að því er virðist, litlir skjálftar,“ segir Bryndís Ýr.