Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Umsóknum í landslagsarkitektúr fjölgar um 240%

24.06.2020 - 12:42
Mynd með færslu
 Mynd: Landbúnaðarháskóli Íslands
Aðsókn í grunnnám á háskólastigi við Landbúnaðarháskóla Íslands hefur meira en tvöfaldast frá því í fyrra. Aukning er langmest í BS námi í landslagsarkitektúr en umsóknum fjölgaði um 240% á milli ára. Jafnframt hafa aldrei fleiri stundað doktorsnám við skólann. 

Margir hafa einnig sótt í starfsmenntanám við skólann, sem er á framhaldsskólastigi. Umsóknum í garðyrkjuskólann á Reykjum fjölgaði um 45 prósent. 136 umsóknir bárust og hafa aldrei verið jafn margar í sögu skólans. Flestir sækja um lífræna ræktun matjurta með 45 umsækjendum. 

Þá fjölgaði umsóknum um nám í búvísindum um 40 prósent. Þar komast færri að en vilja, en skólinn leitar nú leiða til þess að anna eftirspurn. 

Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor LBHÍ, fagnar miklum áhuga á námi við skólann. Hún hefur orð á því hve gleðilegur aukinn áhugi á búvísindanámi sé. 

„Mikilvægt er að fjölga vísindamönnum á breiðu sviði búvísinda, en þar hefur skort á nýliðun á undanförnum árum," segir hún.