Mynd: Veðurstofa Íslands

Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.
Tveir skjálftar með stuttu millibili uppá 4,2 og 3,5
24.06.2020 - 14:31
Jarðskjálftahrina við mynni Eyjafjarðar stendur enn yfir. Jarðskjálfti af stærðinni 4,2 varð rétt fyrir hádegi klukkan 11:51, 29 kílómetra norðaustur af Siglufirði. Annar skjálfti af stærðinni 3,5 varð svo klukkan 12:02 á svipuðum slóðum.
Þá varð skjálfti af stærð M4,0 var kl. 06:59 í morgun. Í hugleiðingum jarðfræðings Veðurstofu Íslands kemur fram að enn mælist mikið af minni skjálftum á svæðinu og áfram eru líkur á því að fleiri stærri skjálftar muni verða.
„Heldur dró úr virkninni um tíma í nótt, um 400 skjálftar hafa mælst þar síðan á miðnætti, flestir undir 3,0 að stærð.
Frá því að hrinan hófst 19. júní hefur sjálfvirkt jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar staðsett yfir 5000 skjálfta. Þrír skjálftar yfir 5 að stærð hafa mælst í hrinunni, sá stærsti á sunnudagskvöldið kl. 19:07 af stærð 5,8 rúma 30 km NNA af Siglufirði. Aðrir skjálftar yfir 5 að stærð voru 5,6 og 5,4 að stærð og voru staðsettir rúma 20 km NA af Siglufirði,“ segir í hugleiðingunum.