Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Sparnaðurinn nemur útblæstri 36 þúsund bíla á ári

Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson
Fiskimjölsverksmiðjur hafa aukið rafmagnsnotkun sína á kostnað olíu undanfarin þrjú ár og hafa með því sparað sér brennslu á rúmlega 56 milljón lítrum af olíu. Það jafngildir útblæstri 36 þúsund fólksbíla á hverju ári.

Árið 2017 hófst átak Landsvirkjunar og Félags íslenskra fiskimjölsframleiðenda sem fólst í að auka rafmagnsnotkun verksmiðjanna á kostnað olíubrennslu. Fiskimjölsverksmiðjurnar haf lengi stuðst bæði við oliu og rafmagn og þegar átakið hófst var hlutfall rafmagns 75 prósent.

Rafmagn uppfyllir í dag 83 prósent af orkuþörf verksmiðjanna að því er fram kemur á vef Samorku. Með hækkandi hlutfalli hafa sparast 56,5 milljón lítrar af olíu og kolefnislosun verksmiðjanna minnkað um 168 þúsund tonn sem jafngildir akstri 36.295 fólksbíla á einu ári.

Átakið hefur verið framlengt til þriggja ára og er stefnt á að hækka hlutfall rafmagns enn frekar. Hefur Landsvirkjun heitið því að auka framboð á skerðanlegri raforku til verksmiðjanna en olía verður áfram vafaaflgjafi.

Fiskimjölsverksmiðjur eru á tíu stöðum á landinu. Þar er uppsjávarafli, sem ekki fer til manneldis, bræddur. Kolmuni, síld, makríll og loðna eru soðin þannig að lýsi losnar og svo er hratið þurrkað svo úr verður mjöl.

Í eftirlitsskýrslu Umhverfisstofnunar sem gefin var út árið 2018 kom fram að  þær fiskimjölsverksmiðjur sem höfðu rafvæðst hafi dregið mjög úr mengun. Hins vegar voru verksmiðjur sem ekki uppfylltu skilyrði sem þeim voru sett í starfsleyfi. Til að mynda menguðu olíubrennarar of mikið og útblástur fór ekki nógu hratt út um skorsteina.