Skemmdir á stuðlum í Stuðlagili

24.06.2020 - 19:52
Formaður Náttúruverndarsamtaka Austurlands gagnrýnir aðfarir landeiganda í Stuðlagili þar sem framkvæmdir eru hafnar við útsýnispall. Minnst þremur stórum hnullungum var velt niður í gilið og brutu þeir úr stuðlum á leiðinni niður í á.

Stuðlagil á Efra-Jökuldal er orðin ein vinsælasta náttúruperlan á Héraði en þar er stór samfelldur stuðlabergsgangur. Náttúruverndarsamtökum Austurlands barst í vikunni ábending um myndband á samfélagsmiðlum sem sýndi framkvæmdir í gilinu. Andrés Skúlason formaður samtakanna afritaði myndbandið og sýndi RÚV.

Fjallað var um málið í sjónvarpsfréttum í kvöld og sýnd brot úr umræddu myndbandi. 

Horfa á fréttatíma

Segir gróflega gengið á náttúruperlu

„Ég verð að lýsa furðu minni yfir því hvernig er gengið þarna á þessa einstæðu náttúruperlu með jafn grófum hætti og þarna er að sjá. Beltagrafa er að velta niður stóreflis steinum sem hrynja þarna niður á stuðlana og brjóta þá ofan í gljúfrið,“ segir Andrés Skúlason, formaður Náttúruverndarsamtaka Austurlands.

Lausir hnullungar hættulegir

„Ástæðan fyrir því að voru hnullungar sem voru látnir gossa hér út í á var einfaldlega að þeir voru lausir og við hefðum aldrei viljað fara í þá vegferð að hafa ótryggt vinnusvæði fyrir starfsmenn hérna og ég tala nú ekki um að hafa ótryggt fyrir gesti sem koma hingað að hafa jafnvel lausa hnullunga hér fyrir ofan. Þannig að þessir hnullungar fóru hér fram af og út í á og ég veit nú ekki betur en að Jökulsá á dal sé með ansi mikið af hnullungum og grjóti og sandi,“ segir Stefanía Katrín Karlsdóttir, einn af landeigendum á Grund.

En hefði ekki verið hægt að fjarlægja þessa hnullunga einhvern veginn öðruvísi?

„Eflaust hefði verið hægt að fjarlægja eitthvað en þetta voru nú ekki margir. Þeir fóru nokkrir hérna niður og ég get ekki séð að þetta skipti svo miklu máli þó að bættust við örfáir. Þú þarft ekki nema að líta hérna í árfarveginn og sjá hvernig staðan er.“

En þeir virðast hafa brotið úr stuðlum.

„Ég er bara algjörlega ósammála því að þetta hafi verið eitthvað brot úr stuðlum þeir féllu að vísu hérna niður á neðstu sylluna sem er yfirleitt á kafi í ánni. Bara ekki núna eftir að vorleysingar eru búnar.“

En ætlið þið að velta fleiri hnullungum hérna niður í gilið?

„Nei, það fara ekki fleiri. Þetta var eingöngu til þess að losa þá lausu sem voru fyrir til þess að tryggja öryggi fólks," segir Stefanía.

Telja að skipuleggja hefði átt staðinn í heild áður en framkvæmdir hófust

Hægt er að skoða Stuðlagili bæði Grundar-megin þar sem stiginn og útsýnispallurinn koma, en ekki síður Klaustursels-megin, en þaðan er hægt að sjá innstu dýrð gilsins sem hrífur marga. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur veitt um 120 miljónum til framkvæmda við Grund, í veg, salerni, stiga, útsýnispall og fleira. Landeigendur við Klaustursel hafa einnig fengið styrk aðalega til stígagerðar en einnig til að setja ræsi í Fossá undir Stuðlafossi og göngubrú yfir Víðidalsá. 

Bæði Náttúruverndarsamtök Austurlands og landeigendur í Klausturseli gerðu athugasemdir við framkvæmdir við Grund. Andrés telur að áður en ásýnd er breytt með útsýnispalli sem reistur er fyrir opinbert fé hefði átt að skipuleggja svæðið í heild beggja vegna ár. „Aðferðafræðin við þetta hún er alröng. Í upphafi hefði átt að setjast yfir þetta og vinna með svæðið í heild sinni. Beggja megin ár. Þessi náttúruperla er þess eðlis að þarna hefði átt að friðlýsa og vernda svæðið, koma á ábyrgri umferðarstjórnun, gera verndar og stjórnunaráætlun og friðlýsa svæðið þarna í heild þannig að það næðist fram heildstæður ávinningur á svæðinu með náttúruperluna sjálfa í forgrunni,“ segir Andrés.

Framkvæmdir bráðnauðsynlegar

Landeigendur á Grund segja hins vegar að þar bráðliggi á framkvæmdum enda hafi ferðamenn hellst yfir viðkvæmt og háskalegt svæðið. „Þessi framkvæmd er afar nauðsynleg einfaldlega vegna þess að eftir að ferðamenn fóru að koma hingað í Stuðlagil, bara síðustu tvö árin þá er jafnvegurinn gjörsamlega að hverfa hérna og í öðru lagi er afar brýnt að bæta öryggi fólks hérna því þetta er ekkert hættulaust svæði,“ segir Stefanía.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi