Seðlabankinn tryggir stuðningslán til smærri fyrirtækja

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Seðlabankinn ætlar að lána bönkunum fjármagn á eitt prósent vöxtum svo þeir geti veitt fyrirtækjum svokölluð stuðningslán vegna Covid-faraldursins. Samningar um þetta tókust síðdegis í dag. Seðlabankastjóri telur ekki óeðlilegt að tekið hafi mánuð að útfæra lánin, það sé betra að vanda til verka þegar farið sé með almannafé.

 

Sumar efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna Covid-faraldursins hafa gengið hægar en margir vonuðust eftir. Ekkert fyrirtæki hefur enn fengið svokallað brúarlán, sem ætluð eru stórfyrirtækjum, enda mun vera lítil eftirspurn eftir þeim hjá bönkunum.

Öðru máli gegnir um stuðningslán til smærri fyrirtækja, sem ríkisstjórnin kynnti fyrir tveimur mánuðum. Þau eru að hámarki 40 milljónir, og mörg lítil fyrirtæki eru orðin langeyg eftir þeim, ekki síst ferðaþjónustufyrirtæki sem hafa mörg verið tekjulaus lungann af árinu. Fram kom í hádegisfréttum að Seðlabankinn hefði enn ekki gengið frá samningum við suma bankana, en úr því var bætt síðdegis í dag.

„Í dag hafa allir bankarnir samþykkt að veita þessi lán," segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. „Við höfum einnig ákveðið hér í Seðlabankanum að fjármagna þessi lán fyrir bankana. Við höfum stofnað sérstakan lánaramma á stýrivöxtum Seðlabankans, sem er eitt prósent, sem við munum fjármagna sem lán til bankanna. Við ætlum að reyna að tryggja það að þessi litlu og meðalstóru fyrirtæki sem þessi lán eru ætluð, fái þau á lágmarksvöxtum."

Þýðir þetta í reynd að þið séuð að prenta peninga fyrir smærri fyrirtækin í landinu?

„Já, það þýðir það."

Ríkisstjórnin kynnti þessar áætlanir um þessi stuðningslán 28. apríl sl, það eru liðnir næstum tveir mánuðir síðan, hvers vegna hefur þetta tekið svona langan tíma?

„Það er að vísu aðeins mánuður síðan við fengum málið, og einn mánuður er ekki langur tími. Þetta er aðgerð þar sem verið er að veita fjármunum ríkisins út í gegnum bankakerfið og það þarf að vanda vel til verka."

Áætlaður kostnaður vegna stuðningslánanna er um 30 milljarðar króna, en Ásgeir segist ekki viss um að eftirspurnin eftir þeim sé eins mikil og margir telja. Best sé að fyrirtæki og einstaklingar leiti allra leiða til að halda sjó áður en ríkið komi fram með sínar aðgerðir.

„Sem betur fer er íslenskt hagkerfi að koma mikið hraðar til baka en við gerðum ráð fyrir, meðal annars vegna lægri vaxta," segir Ásgeir.

 

sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi