Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Offramleiðslukerfið gengur bara ekki upp“

24.06.2020 - 12:27
Mynd: áslaug magnúsdóttir / áslaug magnúsdóttir
„Það eru allir að tala um hvernig þurfi að breyta tískubransanum því kerfið gengur ekki upp,“ þetta segir Áslaug Magnúsdóttir, kaupsýslukona og eigandi tískumerkisins Kötlu. Heimsfaraldurinn leiði vonandi til endurskoðunar á framleiðsluferlum og þeirri hugmynd að það þurfi að koma nýjar fatalínur í búðirnar á nokkurra vikna fresti. 

Yfirlýsingar tískumógúla um að breytinga sé þörf

„Ég held það sé engin spurning að það eru allir núna, innan tískubransans, að tala um hvernig þarf að breyta bransanum. Spurningin er, munu breytingarnar sem eru gerðar verða nægilegar. Það var orðið flestum ljóst fyrir Covid að þetta kerfi er ekki gott. Það að offramleiða 30-40% og vera að búa til varning sem fólk hendir innan nokkurra mánaða, þetta er ekki gott kerfi, hvorki fjárhagslega né áhrifin á umhverfið sem eru svakalega slæm,“ segir Áslaug. 

Models display creations from the collection of fashion house Gardem, presented on the last day of the Abu Dhabi Fashion Week held at Emirates Palace Hotel in Abu Dhabi, United Arab Emirates, early 19 March 2008.  EPA/ALI HAIDER
 Mynd: EPA
Tískusýning í Abu dhabi. í faraldrinum voru haldnar tískusýningar á netinu.

Um tíu prósent af heimslosun gróðurhúsalofttegunda skrifast á tískugeirann. Hann er líka vatnsfrekur og mengandi. Framámenn í tískugeiranum hafa undanfarið tjáð sig um mikilvægi breytinga, til dæmis í tímaritinu Business of fashion. Þá hafa tískumógúlar birt sameiginlegar yfirlýsingar um mikilvægi þess að nota andrýmið sem gafst í faraldrinum til að breyta kerfinu og draga úr neikvæðum áhrifum framleiðslunnar. Á sama tíma hafa samtök um sjáfbæra fataframleiðslu viðrað áhyggjur af því að illa stördd fyrirtæki láti nýtilkomnar umhverfis- og sjálfbærniáherslur lönd og leið. Nú snúist allt um að bjarga rekstrinum. 

Covid-áhrif sáust í verslunum

Covid kýldi tískugeirann í magann. Sendingar urðu strand og sums staðar stöðvaðist framleiðsla. Stórfyrirtæki afpöntuðu heilu skipsfarmana af fatnaði og yfir milljón verkamenn í Bangladess misstu lífsviðurværi sitt, í það minnsta tímabundið. Sala í verslunum hrundi og víða dróst netverslun saman um 30 til 40 prósent. 

Andrés Magnússon, formaður Samtaka verslunar og þjónustu, segir að hér hafi áhrifin á fataverslun verið gífurleg en innflutningur hafi ekki raskast svo hann viti til. Aldrei þessu vant stóðu bílastæðin fyrir utan Kringluna og Smáralind nánast auð. Seinnipartinn í mars og í byrjun apríl var fjöldinn sem sótti verslunarmiðstöðvarnar þar sem flestar spjarir eru keyptar um einn þriðji eða einn fjórði af því sem gengur og gerist í venjulegu árferði. Eftir páska fór aftur að færast líf í verslunarmiðstöðvarnar og Andrés segir að nú sé aðsóknin komin í fyrra horf. 

Áslaug segir að heimsfaraldurinn hafi bitnað illa á tískuiðnaðinum og þess sjáist stað í verslunum. „Það er mikið af fötum sem átti að vera að koma inn á markaðinn í vor eða sumar sem bara komu ekkert, í sumum tilvikum voru þau ekki framleidd, í öðrum tilvikum eru þau föst einhvers staðar út um heim. Þú sérð þetta væntanlega í minna framboði af nýjum varningi en hugsanlega meira framboði af eldri varningi sem undir venjulegum kringumstæðum hefði verið seldur nú þegar en það gerðist ekki út af lokunum og því fólk var meira vart um sig varðandi kaup.“

Þrjár af hverjum fimm flíkum á haugana innan árs

Mynd með færslu
 Mynd: Prada - Pinterest
Tískuvarningur.

Áslaug segir að í tískugeiranum sé offramleiðslan byggð inn í kerfið. „Föt eru oft fjöldaframleidd í Asíu mörgum mánuðum áður en á að selja þau. Það hefur kannski enginn tilfinningu fyrir því hvað mun seljast vel og hvað illa og þá er bara offramleitt, það er talið svara kostnaði, þó það þýði að um 30-40% varningsins endi í ruslinu.“ Áslaug segir að fyrir faraldurinn hafi þrjár af hverjum fimm framleiddum flíkum endað á haugunum innan árs. Að öllu óbreyttu verði hlutfallið hærra núna, það sé svo mikið af uppsöfnuðum varningi í búðunum. 

Vill breyta ríkjandi framleiðsluferlum

Að mati Áslaugar liggja tækifæri í því að hverfa frá svokölluðum sölumisserum, því að það komi ný hausttíska og við það verði sumartískulínan úrelt og nánast verðlaus. Þá vill hún breyta ríkjandi framleiðsluferlum þannig að föt séu framleidd eftir pöntun, ekki í massavís þegar óljóst er hversu mikið af því selst. „Ég held það sé mikilvægt að við höldum okkur ekki við þessi season, það er auðvitað hægt að hugsa sér formúlu sem er bland þar sem er varningur sem er búinn til meira en bara eftir pöntun en það er þá varningur sem er ætlað að endast, til dæmis bara basic jakki eða buxur sem fatamerkið ætlar enn að selja eftir ár eða tvö, þau geta kannski byggt smá lager af því en þegar kemur að varningi sem þeir hafa minni hugmynd um hversu mikið mun seljast af, að það sé þá gert eftir pöntun. Vonandi getum við komist á þann stað að allt verði gert eftir pöntun.“

Tæknin ekki nógu útbreidd

Nú er rætt um breytingar í þessa átt í tískuheiminum, en Áslaugu finnst að umræðan mætti vera róttækari. Hún segir að tæknin til að framleiða eftir pöntun sé til staðar, bara ekki nógu útbreidd og þetta sé ekki eins og í gamla daga þegar það tók margar vikur að fá pöntun afgreidda, nú taki það nokkra daga. Þetta sé ein besta leiðin til að sporna gegn offramleiðslu.

Áslaug stofnaði nýlega eigið tískufyrirtæki, Kötlu. Það lætur framleiða eftir pöntun. „Það eru fleiri fyrirtæki farin að skoða þessa leið en það þarf svolítið mikið til þess að allur bransinn fari í þessa átt því það hefur verið annað kerfi við lýði í mjög langan tíma,“ segir Áslaug. 

Horfir öðruvísi á kostnaðinn

Katla framleiðir á minni skala en stórfyrirtæki á borð við H&M og Zara. Flikurnar eru framleiddar í Bandaríkjunum, svo þær séu nær lykilmarkaðinum. Hver flík er merkt með númeri sem kaupandinn getur flett upp á netinu og nálgast upplýsingar um framleiðsluferlið og umhverfisáhrif þess, verðið á flíkunum hleypur stundum á tugum þúsunda. Getur allur tískugeirinn þróast í svipaða átt eða er það bara á færi minni og dýrari merkja? „Ef ég ber saman kostnað við eitt stykki sem ég framleiði miðað við eitt stykki sem ég myndi framleiða í Asíu ef ég væri að framleiða hundrað í einu, þá er einingakostnaðurinn hærri í Bandaríkjunum. Hins vegar ef ég fer að taka tillit til flutningskostnaðar, geymslukostnaðar og áhættu sem felst í að vera að flytja þetta yfir og svo ástands eins og COVID, þá fer maður að skoða kostnaðarsamanburðinn öðruvísi.“ 

Sparnaður með færri tískusýningum og einfaldara kerfi

En eru fyrirtæki sem fjöldaframleiða tískuvarning og selja á tiltölulega lágu verði ekki háð því að neytendur kaupi margar flíkur sem kannski endast stutt? „Ég held að fatamerki þurfi að endurhugsa hvernig þau gera þetta og skipuleggja sig í kringum það en það er auðvitað heilmikill kostnaður við að búa til svona mörg föt á hverju ári, það er kostnaður við tískusýningar sem eru fjölmargar á ári hverju, það er kostnaður við að fólk fljúgi fram og til baka um allan heim, að vinna við þetta. Ef þetta er einfaldað er auðvitað sparnaður sem kemur þar á móti.“

Er hægt að færa framleiðsluna? 

Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Saumað í Bangladess.

Áslaug segir flókið að svara því hvort rétt sé að flytja alla framleiðsluna frá Asíu, hún telur umhverfisvænna að framleiða nærri neytendum, en viðurkennir að það myndi bitna á fólki sem hefur lífsviðurværi af framleiðslunni. Í mörgum tilvikum sé fólkið þó að vinna við hættulegar aðstæður og ekki að fá mannsæmandi laun. 

Rekjanleiki gæti orðið almennur

Áslaug segir víða verið að þróa sambærilega tækni og fyrirtækið hennar notar til að merkja flíkurnar svo neytandinn geti fengið upplýsingar um framleiðsluferlið. Fleiri fyrirtæki ættu því að geta tileinkað sér það kerfi. Vandinn sé sá að fyrirtækin vilji ekki endilega auglýsa hvernig fötin eru búin til. Mörg hafi ýmislegt á samviskunni. Þróun í þessa átt gæti þó ýtt undir gagnsæi og orðið til þess að fyrirtæki sem valda miklu umhverfistjóni taki sig á. 

Grænu merkimiðarnir ekki nóg

Síðastliðin ár hafa neytendur lagt aukna áherslu á sjálfbærni. Fyrirtæki hafa brugðist við með ýmsum hætti. Oft aðgreina stór hraðtískufyrirtæki ákveðnar flíkur með grænum merkimiðum; Concious, Aware, Sustainable og lengi mætti áfram telja. Þetta eru flíkur sem samkvæmt fyrirtækjunum eru umhverfisvænni kostur, oft að hluta úr endurunnum pólíester eða endurunni bómull. Áslaug segir að þetta sé skref í rétta átt. „Ég held þeim sé alvara í að reyna að bæta sig en efnin sem þú velur eru bara einn partur af þessu, offramleiðslan er svo rosalega stór þáttur í því og ég held þeir séu ekkert að leysa það vandamál, ekkert að breyta kerfinu í kringum það hvernig þeir framleiða og selja og þeir þurfa að tækla það vandamál líka.“