Miðflokksmenn einir í pontu frá hádegi

24.06.2020 - 17:23
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Miðflokksmenn hafa verið einir á mælendaskrá á þingfundi frá hádegi. Enn snúa umræðurnar að samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu. Þingfundur hófst klukkan 11:00 í morgun.

Á Alþingi stendur nú yfir önnur umræða um frumvarp til laga um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Málið er það fyrsta af tuttugu sem er á dagskrá þingsins í dag. Síðustu fimm klukkutíma hafa Miðflokksmenn einir tekið til máls. 

Birgir Þórarinsson hefur talað einna mest í dag. Hann sagðist í upphafi fundar ekki sjá neina skynsemi í samgöngusáttmálanum. Hann lýsti áhyggjum sínum af því að til stæði að fórna bílastæðum og raska umferð. Þá fyndist honum stjórnvöld stýra mönnum í ákveðinn samgöngumáta sem hann efaðist um að gengi upp. 

Hann lýsti einnig efasemdum sínum um að sáttmálinn styddi við markmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Hann sagði borgarlínu sennilega ekki vera vistvænni en rafbílar og hélt því fram að borgarlínuvagnar myndu líklega valda þúsundföldu sliti á vegum á við bíla. 

Í morgun tók einnig til máls Logi Einarsson sem benti á að stjórnvöld rynnu ekki blint í sjóinn með samgönguáætlunina. Almenningssamgöngur væru grundvöllur að best heppnuðu borgum í heimi og þar væru það ekki aðeins loftslagssjónarmið sem réðu för heldur einnig efnahags- og félagslegir þættir. Mikilvægt væri að gefa tekjulægri heimilum kost á að nýta ódýrari samgöngur en einkabíl. Einkabíllinn hentaði vel við einstaka tilefni en sem almenn neysluvara frá degi til dags myndi hann sennilega fljótt heyra sögunni til. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi