Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Langaði að gera tónlist tónlistarinnar vegna

Mynd: RÚV / RÚV

Langaði að gera tónlist tónlistarinnar vegna

24.06.2020 - 11:10

Höfundar

Atli Örvarsson tónskáld gefur út fyrstu sólóplötu sína á næstunni. Platan hefur verið í gerjun í mörg ár en andlát Jóhanns Jóhannssonar varð honum hvatning til að ljúka við hana.

Atli Örvarsson hefur átt mikilli velgengni að fagna sem kvikmyndatónskáld. Hann hefur samið tónlist fyrir yfir 40 kvikmyndir og ótal sjónvarpsþætti. Í næsta mánuði kemur út fyrsta sólóplata Atla og nefnist hún You are here. „Eigum við ekki að segja að það megi búast við einlægni frá hjartanu og tónlist tónlistarinnar vegna,“ segir hann um plötuna. „Ég fann þörf  til að skapa eitthvað sem var ekki fyrir ákveðið verkefni, ekki fyrir kvikmynd eða sjónvarpsþætti. Bara gefa eitthvað af sér og reyna að auka við fegurðina í heiminum.“  

Elsta efnið á plötunni er hartnær tuttugu ára gamalt en Atli segir að vendipunkturinn hafi verið fyrir rúmum tveimur árum. „Ég var að semja tónlist fyrir myndina How It Ends þegar ég fékk þau tíðindi að Jóhann Jóhannsson væri fallinn frá. Það gekk ekkert að semja fyrir myndina því ég var of dapur og niðurbrotinn. Þannig að ég samdi eitthvað allt annað og úr varð lag sem heitir Flying. Það er á plötunni og er tileinkað Jóhanni. Þessi upplifun varð einhvern veginn hvati til að taka þetta alvarlega og klára þessa plötu.“  

You are here er fyrsta platan sem kemur út á vegum tónlistarforlagsins INNI Music, sem Atli stofnaði með félaga sínum, Colm O'Herlihy. „Þegar ég flutti heim frá Bandaríkjunum gerði ég mér grein fyrir því hversu mikið af snillingum starfa við tónlist á Íslandi. Bæði er svo mikil sköpun og frumlegheit, en líka svo mikil kunnátta og þekking og fagmennska. Mig langaði til þess að setja saman einhvers konar fyrirtæki sem gæti mögulega hjálpað að koma þessari tónlist á framfæri erlendis.“ 

Tvö tónskáld, Sindri Már Sigfússon - Sin Fang - og Sóley Stefánsdóttir, eru þegar komin á mála hjá félaginu. „Við erum ekki endilega að stefna á að gera þetta að stærsta fyrirtækinu í bransanum. Við viljum frekar vera með færri en hnitmiðaðri listamenn og búa til katalóg sem við teljum eiga erindi erlendis.“  

Atli samdi tónlistina við Netflix-myndina Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga. Þar er Will Ferell í aðalhlutverki og var myndin tekin upp á Íslandi. „Sú tónlist sem ég er að gera þarna er í rauninni andstæðan við Eurovision ef svo má segja. Sögupersónunurnar eiga að vera Íslendingar og ég reyni að búa til kontrast milli þess að koma úr sveit á Íslandi og vera varpað í þessa iðu sem er Eurovision-keppnin og allan þann glamúr sem fylgir því. Ég held að fólk verði að sjá myndina til að sjá hvað ég meina og líka bara til að hlæja svolítið og lífga upp á tilveruna.“

Rætt var við Atla Örvarsson í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.    

Tengdar fréttir

Tónlist

Atli Örvars snýr við blaðinu og gerir tónlist fyrir sig

Klassísk tónlist

Kvikmyndatónlist nýr atvinnuvegur á Akureyri