Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ísland ætti að losna af gráa listanum í október

24.06.2020 - 17:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ísland ætti að losna af gráum lista alþjóðlegra samtaka sem berjast gegn peningaþvætti í október gangi áform eftir. Þetta kemur fram í frétt á vef stjórnarráðsins. Ísland var sett á listann í október í fyrra og þá vonuðust ráðherrar ríkisstjórnarinnar að Ísland losnaði af listanum snemma á þessu ári. Það gekk ekki eftir. ,,Það er ánægjulegt að fá það staðfest í dag að við höfum komið þeim aðgerðum sem útaf stóðu í framkvæmd með fullnægjandi hætti,“ segir dómsmálaráðherra.

Ísland þótti ekki vera með nægar varnir gegn peningaþvætti. Til að bregðast við þessu hafa stjórnvöld hér m.a. sett lög sem lúta að skráningu raunverulegra eigenda fyrirtækja og félaga í fyrirtækjaskrá.

Á fundi samtakanna FATF í dag kom fram að í Ísland hefði með fullnægjandi hætti lokið aðgerðum sínum til að uppfylla skilyrði samtakanna. Fulltrúar þeirra ætla að koma hingað í haust í vettvangsferð til þess að staðfesta árangurinn, að því gefnu að kórónuveirufaraldurinn komi ekki í veg fyrir það. Gangi það eftir megi gera ráð fyrir að lögð verði fram tillaga um að Ísland verði tekið af listanum í október.

Mál Íslands eitt fárra á fundinum

Fundurinn í dag var reglubundinn allsherjarfundur FATF og var hann rafrænn vegna COVID-19, að því er kemur fram í skriflegu svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu. Mál Íslands var eitt fárra atriða sem tekið var fyrir á fundinum.

Eru dæmi þess að vera Íslands á listanum hafi haft neikvæð áhrif á fyrirtæki, stofnanir eða einstaklinga?

„Já, það munu vera einhver dæmi um það en stjórnvöld hafa ekki yfirlit yfir slík tilvik,“ segir í svari ráðuneytisins. Þá kemur fram að Fyrirtækjaskrá hafi beitt dagsektum gagnvart lögaðilum sem ekki hafa sinnt skyldu sinni til að skrá raunverulega eigendur. 

Hvað finnst ráðherra um svör og samvinnu við FATF?

,,Það er ánægjulegt að fá það staðfest í dag að við höfum komið þeim aðgerðum sem útaf stóðu í framkvæmd með fullnægjandi hætti. Frá því að Ísland var sett á gráa listann hefur samvinna við FATF gengið vel og okkar áhersla hefur verið frá upphafi að þær aðgerðir sem út af stæðu væru í vel tímasettum farvegi,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í svari til Fréttastofu RÚV.

Faraldurinn ekki tafið það að Ísland losni af listanum

„Nei. COVID-19 hefur haft mikil áhrif á störf FATF og var flestum málum í yfirstandandi fundarlotu frestað. Hins vegar var samþykkt að halda ferlinu áfram hvað Ísland varðar eftir ábendingar dómsmálaráðherra á neikvæð áhrif þess að fresta ferli Íslands. Eins og greinir að framan má gera ráð fyrir að vettvangsathugun fari fram í byrjun september, nema COVID-19 standi því í vegi. Verði fullnægjandi árangur Íslands við þær aðgerðir sem um ræðir staðfestur í vettvangsathuguninni, má gera ráð fyrir að lögð verði fram tillaga um að Ísland verði tekið af gráa lista FATF á fundum FATF í október,“ segir í svari ráðuneytisins.