Hlín með þrennu er Valur fór að hlið Breiðabliks

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Hlín með þrennu er Valur fór að hlið Breiðabliks

24.06.2020 - 20:15
Valskonur unnu öruggan 6-0 sigur á Þór/KA í toppslag Pepsi Max-deildar kvenna í fótbolta í kvöld. Tveir leikir voru á dagskrá er þriðja umferð deildarinnar kláraðist.

Bæði Valur og Þór/KA voru með fullt hús stiga eftir tvo leiki og kepptu því um að fara að hlið Breiðabliks á toppnum en Blikakonur unnu 6-0 sigur á KR í gærkvöld.

Valskonur gátu ekki verið minni konur en þær frá Kópavogi og léku það eftir í kvöld. Þrátt fyrir blíðskaparveður sáu Norðankonur vart til sólar á Hlíðarenda í kvöld. Valskonur leiddu 2-0 í leikhléi eftir tvö mörk Hlínar Eiríksdóttur og þá breytti Elín Metta Jensen stöðunni í 3-0 eftir fjögurra mínútna leik í síðari hálfleik. Fimm mínútum síðar fullkomnaði Hlín þrennu sína er hún kom Val 4-0 yfir. Elín Metta skoraði annað mark tuttugu mínútum fyrir leikslok áður en reynsluboltinn Dóra María Lárusdóttir gekk endanlega frá leiknum í uppbótartíma.

Valur vann 6-0 og er með níu stig eftir þrjá leiki, rétt eins og Breiðablik. Valskonur eru þó í öðru sæti vegna lakari markatölu en Kópavogskonur.

Annar leikur var þá á dagskrá í kvöld er ÍBV tók á móti Stjörnunni í Vestmannaeyjum en bæði lið voru þrjú stig fyrir leik kvöldsins. Gestirnir úr Garðabæ unnu 1-0 sigur með marki Maríu Sólar Jakobsdóttur.

Stjarnan er því með sex stig eftir fyrstu þrjá leikina en ÍBV þrjú.