Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hafa tínt 36 tonn af rusli á Hornströndum

Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Árlegri ruslatínslu í friðlandinu á Hornströndum lauk í gær. Gauti Geirsson, einn skipuleggjenda fjörutínslunnar, segir að 2,6 tonn hafi verið tínd í ár. Alls 36 tonn hafa verið tínd síðan tínslan hófst 2014.

Áður rekaviður, nú plast

„Straumarnir haga því þannig að það virðist reka mikið rusl á Hornstrandir. Frá fornu fari hefur rekið mikið af rekavið en nú kemur plast,“ sagði Gauti Geirsson í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Hvert sumar fer um tuttugu manna hópur í sjálfboðavinnu á Hornstrandir að tína ruslið sem rekur á land og komast færri að en vilja.

Olíubrúsar, sinnepsumbúðir og færiband

Gauti segir það sem finnst í fjörunni bæði vera rusl sem fýkur af landi og að stór hluti sé veiðarfæri, net, netakúlur og kaðlar sem sé ekki endilega verið að henda viljandi. Sárast sé að sjá hluti sem eiga alls ekki heima í sjónum, og nefnir olíubrúsa og færiband sem sæmi.

Eitt tonn var tínt í Hornvík í ár en síðast fór hópurinn þangað fyrir fimm árum. Þá voru tínd tvö tonn á sama svæði. 

„Það getur verið að við séum að tína toppinn á ísjakanum," segir Gauti. Mikið rusl sé grafið í jörðina sem brimið grefur síðan upp. „Samt erum við að sjá nýtt rusl, því miður. Þó sé það tilfinningin að það sé mikið minna eru engu að síður sinnepsflöskur og alls konar umbúðir og skrýtnir hlutir sem við erum að sjá."

Varðskip Landhelgisgæslunnar siglir síðan með ruslið til urðunar á Ísafirði sem Gauti segir forsendu þess að tínslan sé möguleg. 

Hvetur fólk til að fara út að tína rusl

„Við höldum áfram og viljum hvetja fólk til að tína rusl. Maður þarf ekki að gera þetta á þessum skala,“ Gauti segir að fólk geti  dregið úr mengun sinni með því að huga að neyslu sinni, umgengni og að hægt sé að tína rusl í sínu nærumhverfi.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV