Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gæti orðið lífgjafi ferðaþjónustunnar

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Lagt er til í nýju frumvarpi meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis að stofnaður verði Ferðaábyrgðasjóður sem endurgreiði fólki pakkaferðir sem féllu niður á tímabilinu mars til júní. Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar fagnar frumvarpinu og segir að það gæti bjargað ferðaskrifstofum frá falli.

 

Frumvarpið er samið í samráði við atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið. Í því felst að stofna tímabundinn Ferðaábyrgðarsjóð sem á að bregðast við lausafjárvanda ferðaskrifstofa með því að lána þeim fé til að endurgreiða fólki pakkaferðir innanlands og -utan sem fara átti á tímabilinu 12. mars til 30. júní en þurfti að aflýsa. Frumvarpinu er ætlað að tryggja lögbundinn rétt fólks til endurgreiðslu en einnig að aðstoða ferðaskrifstofur í erfiðu rekstrarumhverfi. 

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að komið sé í grundvallaratriðum til móts við þann vanda sem ferðaskrifstofur hafa verið í.  „Það hefur kannski aukið heldur á vandann hversu lengi hefur dregist að ná fram niðurstöðu um hvaða leiðir stjórnvöld hafa viljað fara í þessu máli en ég held að, miðað við hvernig staðan er, að það sé ágæt leið sem þarna er sett fram,“ segir Jóhannes.

Gæti haldið lífi í ferðaskrifstofum sem berjast í bökkum

Hann segist telja að þetta gæti orðið til þess að halda lífi í einhverjum ferðaskrifstofum sem berjast í bökkum. „Ég veit dæmi þess að fyrirtæki í þessum geira muni einfaldlega verða gjaldþrota eða skila inn leyfinu ef þetta verður ekki að lögum,“ segir Jóhannes.

Skuldbindingar sjóðsins verða á ábyrgð ríkissjóðs og hann verður í vörslu Ferðamálastofu. Fólk getur beint kröfu í sjóðinn og það geta ferðaskrifstofur einnig gert. Ferðaskrifstofan þarf að greiða til baka innan sex ára og fara ársvextir eftir stærð fyrirtækisins, þeir verða 3,15% fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og 3,65% fyrir stór fyrirtæki. Áætlað er að fjárþörf sjóðsins verði um 4,5 milljarðar króna, en þar sem um lán er að ræða er gert ráð fyrir að meiri hluti þess muni endurheimtast og renna aftur í ríkissjóð.

Jóhannes segir aðgerðirnar í samræmi við björgunarpakka ríkisstjórnarinnar.  „Ég held að í grundvallaratriðum sé þetta sambærilegt við þær aðgerðir sem hafa komið áður eins og til dæmis stuðningslán,“ segir hann.

Tryggingarkerfi vegna pakkaferða verður endurskoðað

Í frumvarpinu segir að áhrif COVID-19 faraldursins hafi sýnt fram á þörf á endurskoðun á tryggingarkerfi vegna sölu pakkaferða, en hingað til hefur hvert og eitt fyrirtæki þurft að vera tryggt að fullu. Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið hyggi á heildarendurskoðun þess, stofnaður verði tryggingarsjóður sem á að taka við tímabundna Ferðaábyrgðarsjóðnum og að sá sjóður muni tryggja neytendum endurgreiðslur.

 

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir