Eurovision-mynd Ferrells ekki sögð upp á marga fiska

Mynd með færslu
 Mynd: Netflix - Eurovision Song Contest: The Sto

Eurovision-mynd Ferrells ekki sögð upp á marga fiska

24.06.2020 - 17:37

Höfundar

Fyrstu dómarnir um Eurovision-grínmynd Wills Ferrells, Eurovison Song Contest: The Story of Fire Saga, eru ekki jákvæðir. Söguþráður myndarinnar er sagður tætingslegur, myndin allt of löng, grínið gamaldags og samleikur Ferrells og Rachel McAdams stirður.

Myndin er framleidd af Netflix og dettur inn á streymisveituna á föstudag. Hún var að hluta tekin upp á Íslandi og nokkrir Íslendingar fara með aukahlutverk í henni, en Will Ferrell fer með aðalhlutverk auk þess að skrifa handritið ásamt Andrew Steele. „Myndin er ekki hörmung, bara undarlega tilgangslaus,“ segir Peter Bradshaw gagnrýnandi Guardian í tveggja stjörnu dómi og bætir við að erfitt sé að hlæja að Söngvakeppninni því það sé augljóst að aðstandendur keppninnar hafi haft eitthvað að segja um hvernig hún er sýnd í myndinni. 

Owen Gleiberman hjá fagritinu Variety segir að umfjöllunarefnið og Will Ferrell sem miðpunkturinn hafi alla burði til þess að vera stórhlægilega grínmynd í ætt við Anchorman og Talladega Nights þegar Ferrell var upp á sitt besta. Raunveruleikinn sé hins vegar eins og þunnur „skets“ úr Saturday Night Live sem sé teygður út í tvo tíma. Myndin sé gott dæmi um þegar Netflix veiti listamanni of mikið frelsi, myndin sé óreiðukennd og hefði þurft aðkomu fleira fólks, meiri ritstjórn, til að verða almennileg. Hollywood Reporter tekur í sama streng og segir að til að myndin hafi átt séns hefði þurft að klippa hana niður í 85 mínútur og með því leggja áherslu á fyndnustu atriðin og skauta yfir þvingaðan söguþráðinn. Þar segir líka að natúralískur leikstíll Rachel McAdams falli illa að líkamlegum skrípaleik Ferrells og það skorti tilfinnanlega kemistríu milli þeirra.

Gagnrýnandi Indiwire segir að myndin sé lítil sárabót fyrir að Söngvakeppnin sjálf var ekki haldin vegna COVID-19 faraldursins. Molly Freeman hjá Screen Rant segir myndina allt of langa og kraftlausa, þrátt fyrir einstaka fyndin tónlistaratriði. Þá finnst henni sumt grínið gamaldags og taktlaust, til að mynda eigi það að vera fyndið þegar kvenpersóna reyni líkamlega að þröngva persónu Ferrells til að stunda kynlíf með sér. Hanna Flint hjá IGN segir mikið ósamræmi í myndinni en gefur henni þó einkunnina sex af tíu. Henni til tekna sé hún gerð af augljósri ástríðu og aðdáun á Eurovision-keppninni, en drukkni af og til í klisjum og of augljósum bröndurum.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Vilja heimsfrumsýna Eurovision-mynd Ferrells á Húsavík

Kvikmyndir

Hópur Íslendinga í stiklu Euro-myndar Will Ferrell

Tónlist

Will Ferrell í Eurovision-veislu á RÚV í kvöld

Menningarefni

Will Ferrell setur Húsavík á hliðina