Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ekki líklegt að Íslendingar standi við Parísarsáttmála

Mynd með færslu
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar.  Mynd:
Auður Önnu Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Landverndar segir að uppfærð aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum sé til mikilla bóta en þrátt fyrir það séu ekki líkur á því að Íslendingar standi við Parísarsáttmálann.

Betri áætlun 

Ný uppfærð aðgerðaráætlun var kynnt í gær þar sem því er lýst yfir að Íslendingar ætli að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um að minnsta kosti 40% árið 2030 og að Íslandi yrði kolefnishlutlaust árið 2040. Auður segir að áætlunin sé mun betri  
 
„Hún er bæði mjög vel framsett og vel útskýrð í þetta skipti sem að vantaði uppá í hinni.“ 
 
Sagt er nákvæmlega í henni hve miklum samdrætti hver aðgerð á að skila sem sé eina leiðin til að meta hvort  hún sé raunhæf. 

Einungis tíu ár til stefnu

Ef farið verður eftir þessari áætlun eiga Íslendingar eftir að geta staðið við Parísasáttmálann?
 
„Nei það held ég að við munum ekki gera. Því miður þarna er eins og áður ofuráhersla á orkuskipti í samgöngum og við höfum mjög stuttan tíma.“ 

Íslendingar hafi minna en tíu ár til að draga úr losun frá samgöngum á landi um  fjögur hundruð þúsund tonn. Losun hafi aukist mikið frá samgöngum og því séu Íslendingar að byrja í mjög stórum mínus. Þó sé til bóta að gert er ráð fyrir fjölbreyttum ferðamáta
 
„En þessi ofur áhersla á orkuskiptin það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að við munum draga svona mikið úr losun eingöngu með þeim ívilnunum sem gert er þarna.“