Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ekki hægt að nýta ferðagjöfina fyrir tjaldstæði

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Tjaldstæði fá ekki að taka við ferðagjöf stjórnvalda því þau falla ekki undir lög um gisithiemili, segir Elías Bj. Gíslason forstöðumaður Ferðamálastofu. Hildur Þóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins Tjöld í Skagafirði, segir að þetta hafi komið verulega á óvart.

Tjaldstæði skráð í góðri trú

Á síðunni ferðalag.is er listi yfir þau fyrirtæki sem taka við ferðagjöfinni og þar á meðal eru nokkur tjaldstæði.  

Hildur Þóra segir að hún hafi skráð tjaldstæðin sín í góðri trú. „Svo hefur Ferðamálstofa samband í gær og segir að tjaldstæði því miður falli ekki undir þetta og eigi ekki að taka á móti ferðagjöf og þetta fannst mér bara mjög skrítið.“

Hefur tekið við nokkrum ferðagjöfum

Tjaldstæðin taka þátt í markaðsátakinu „Ferðumst innanlands“ og Hildur Þóra segist hafa fengið tölvupósta frá yfirvöldum með leiðbeiningum um hvernig taka eigi á móti ferðagjöfum. Nú þegar hafi hún tekið við allt að fimmtán.  
 
„Mér finnst bara rétt að þetta komi fram og tjaldstæðarekendur viti það og séu ekki að taka á móti þessari gjöf en eins bara Íslendingar sem hafa hugsað sér að nýta ferðagjöfina að þeir viti að stórnvöld hafi ekki hugsað sér að Íslendingar fari á tjaldstæði.“

Ferðagjöf fyrir tjaldstæði með veitingaleyfi 

Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður Ferðamálastofu, segir að tjaldstæði falli ekki undir lög um gististaði né lög um ferðagjöfina.
 
„Það eru heilbrigðisfulltrúar svæðanna sem gefa út leyfin fyrir tjaldstæðin þannig að einhverra hluta vegna varð þetta út undan.
Hins vegar er það svo að eitthvað af tjaldsvæðum er með veitingaleyfi og ef þau eru með veitingaleyfi taka þau á móti ferðagjöfinni.“