Efnahagurinn þarf að vænkast til að Trump nái viðspyrnu

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RUV
Trump Bandaríkjaforseti á undir högg að sækja í baráttunni um forsetaembættið. Silja Bára Ómarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði, segir að mikið þurfi að breytast í efnahagslífinu á næstu vikum og mánuðum til að Trump eigi möguleika á endurkjöri.

Bandarískt efnahagslíf var í blóma í byrjun árs og það eitt og sér virtist ætla að skila Donald Trump langt í baráttunni um forsetaembættið, en kosið verður í byrjun nóvember. Heimsfaraldur setti síðan strik í reikninginn. Nú mælist Joe Biden, mótframbjóðandi hans, með öruggt forskot, samkvæmt könnunum, og hefur aukið fylgið jafnt og þétt síðustu vikur. „Það virðist ekkert lát á því og maður sér ekki að Trump sé að ná einhverjum stökkum, það eru þessir sömu brestir og hafa verið að hamla honum, hagkerfið stendur í stað og jafnvel er að dragast saman, veiran heldur áfram að dreifa úr sér og stjórnvöld eru ekki að ná tökum á henni þannig að það þyrfti að verða alveg gríðarleg breyting til þess að hann næði að snúa þessu trendi við,“ segir Silja Bára. 

Silja Bára segir að Trump þurfi að leika sama leik og fyrir fjórum árum; að koma þeim málum á dagskrá sem kaffæri flest önnur. Þá var það veggur á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, en lítill hluti hans er nú risinn í Arizona, einu lykilríkjanna sem barist er um í forsetakosningunum. Innflytjendamál verða líklega ekki eins áberandi núna en Trump hefur einbeitt sér að framkvæmd kosninganna og segir póstkosningu, sem tíðkast hefur lengi, leiða til víðtæks kosningasvindls. 

Þá hefur Trump tekið skýra afstöðu gegn mótmælendum, sérstaklega í Washingtonborg, kallaði til þjóðvarðliðið og hefur heitið því að halda uppi lögum og reglu, hvað sem það kosti. Silja Bára segir þetta eitt af þeim trompum sem sitjandi forseti hefur á hendi. „Það er að reyna að draga úr kjörsókn og jafnvel að gera það með því að auka sýnilegt vopnavald á götum úti sem myndi þá hræða ákveðna hópa kjósenda frá sem óttast ofbeldi frá hinu opinbera. Þannig að það er svona ljótasta útgáfan sem hægt er að hugsa sér vegna þess að minni kjörsókn á kjördag, hún oftast skilar sér í betri árangri Repúblíkana sem er auðvitað það sem að Trump sækist eftir,“ segir Silja Bára. 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi