Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Brexit – margt sem þarf að ganga upp

24.06.2020 - 17:00
Boris Johnson · Bretland · Brexit · Erlent · ESB
Mynd: EPA / EPA
Í skrifstofum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel hefur COVID-19 veiran skyggt á Brexit. Fátt áþreifanlegt hefur hafst upp úr samningaviðræðum Breta við Evrópusambandið, sem staðið hafa síðan í byrjun mars, um framtíðarviðskiptasamband. Í síðustu viðræðulotu virðist þó hafa náðst sameiginlegur skilningur sem hægt verður að byggja á. En nýr samningur ætti að taka gildi um áramótinn og tíminn til að klára viðræðurnar er naumur.

COVID-19 breytti gangi Brexit

Það er margt sem hefur farið úr skorðum undanfarna mánuði og viðkvæðið er COVID-19 veiran. Margt sem hefur farið öðruvísi en ætlað var vegna veirunnar. Brexit-framhaldssagan, útganga Breta úr Evrópusambandinu, er ein slík saga. Framvindan orðið öðruvísi en ætlað var vegna veirunnar; samningafundir um framtíðarviðskiptasamband Breta og ESB til dæmis farið fram um fjarfundabúnað eins og margt annað.

Fiskveiðar erfiður hjalli sem fyrr

Í sjálfum samningaviðræðunum steytir á ýmsu. Af einstökum málum eru fiskveiðarnar klárlega ólseigt viðfangsefni þar sem hvorki ESB né Bretar hafa verið tilbúnir að gefa eftir. Alla vega ekki hingað til. Þó sjávarútvegur hossi ekki hátt, hvorki í landsframleiðslu Breta né þeirra átta ESB-landa sem eiga mestra hagsmuna að gæta, þá skipta fiskveiðar miklu tilfinningamáli. Svo eru það forsendur ESB um að Bretar samþykki að halda sig við ESB-reglur; atriði sem Bretar eru ósáttir við. Reglur um ríkisstyrki eru einnig erfitt mál.

Brexit keppir um athygli við stórmál ESB

Vandi Bretanna er enn svolítið sá að keppa um tíma og athygli á farsóttartímum. Einnig að ESB er nú að semja innbyrðis um fjárlög, lokahnykkurinn í júlí. Alltaf erfitt mál, enn frekar nú þegar ESB verður af fjárframlagi Breta og stendur frammi fyrir miklum útgjöldum vegna veiruhremminganna.

Leiðtogafundur ESB nú í liðinni viku fór í viðræður leiðtoganna um efnahagsleg viðbrögð vegna veirufaraldursins. Brexit-samingurinn við Breta verður geymdur fram í júlí, þegar leiðtogarnir stefna að því að hittast í fyrsta skipti í eigin persónu eftir veirufaraldurinn.

Ergelsi á báða bóga vegna lítils árangurs

Það hefur valdið ergelsi í ESB að Bretar haldi sig lítt við pólitíska samkomulagið, sem var einn liðurinn í útgöngusamningum. Bretar telja samkomulagið aðeins hafa pólitískt gildi og það ekki bindandi. Formlega rétt, en að mati ESB er samkomulagið þó forsenda framtíðarsamningsins.

Það hefur síðan vakið ergelsi beggja vegna samningaborðsins hvað lítið hefur miðað í samningaviðræðunum, fátt áþreifanlegt sem hefur náðst. Eftir síðustu samningalotu virðist þó vera komið annað hljóð í strokkinn. Jú, viðræðurnar séu á réttri leið.

Sameiginlegur skilningur – skref í rétta átt

Samkvæmt heimildum Spegilsins hefur þó ekki náðst neinn áþreifanlegur áfangi. Hins vegar ríki nú gagnkvæmur skilningur beggja vegna samningaborðsins á afstöðu mótaðilans og hvert stefni. Það sé mikilvægur áfangi, mikilvæg forsenda fyrir árangursríku framhaldinu.

Málamiðlun nauðsynleg

Samningur verður á endanum einhvers konar málamiðlun. Hér er tilfinningin sú að Bretar þurfi kannski að slaka meir á sínum kröfum en ESB, einmitt af því þeir höfðu þegar gengist inn á ákveðin atriði í pólitíska samkomulaginu.

Samið í kapphlaupi við tímann

Annað mál er að tíminn er naumur – Bretar eru harðir á því að þeir gangi að fullu úr ESB um áramótin. Sá biðtími, sem nú er, rennur þá út. Annaðhvort hafa Bretar þá nýjan samning í höndunum eða ekki en sama hvað þá yfirgefi þeir ESB að fullu.

Líklega semst en það reynir á forsætisráðherra

Stóra spurningin er eftir sem áður hvort það yfirleitt náist samningar. Boris Johnson forsætisráðherra hefur marg hnykkt á að Bretar hræðist ekki að vera án samnings. Breskt viðskiptalíf hræðist þó þá stöðu að vera án viðskiptasamnings við þennan langstærsta viðskiptaaðila sinn sem ESB er. Ýmsir telja samningsleysi fyrst og fremst hótun Johnsons, hann vilji í raun umfram allt semja. Í grein í Financial Times nýlega var bent á að forsætisráðherra væri almennt frekar lítill í sér þegar á hólminn kæmi. Kemur í ljós.

Og kemur kannski fljótt í ljós. Þó viðmiðunin sé áramótin hefur breska stjórnin lagt áherslu á að þegar í júlí verði að vera kominn árangur, sem vísi í rétta átt.

Jafnvel þó semjist í tæka tíð er ýmislegt eftir

Og verður þá allt klárt um áramótin? Það er líka óvíst. Jafnvel þó það liggi fyrir samningur í tæka tíð þá mun hann hafa í för með sér breytingar sem tekur tíma að koma á. Það þarf til dæmis að þjálfa starfsfólk í tollafgreiðslu og slíkri þjálfun gæti COVID-19 veiran seinkað. Veiran hefur alls staðar áhrif en í Bretlandi eru veiruáhrifin samtvinnuð útgöngu Breta úr ESB og búa til enn stærri vanda úr erfiðu máli.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir