Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Bandaríkjamönnum líklega ekki hleypt til Evrópu strax

24.06.2020 - 08:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Allar líkur eru á að Bandaríkjamönnum verði ekki hleypt til Evrópu þegar ytri landamæri Evrópusambandsins verða opnuð um mánaðamótin. Ástæðan er hversu illa Bandaríkjamönnum hefur gengið að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar.

Þetta kemur fram í dagblaðinu New York Times, en blaðið hefur undir höndum drög að lista frá Evrópusambandinu yfir hvaðan ferðamenn mega koma til Evrópu. Að sögn blaðsins eru tveir listar til skoðunar yfir lönd sem hefur tekist að hemja faraldurinn. Bandaríkin, Rússland og Brasilía eru á hvorugum þeirra, vegna stöðu faraldursins í þessum löndum. Þar er hins vegar að finna lönd á borð við Kína, Kúbu, Úganda og Víetnam.

Bandaríkjamenn hafa ekki fengið að ferðast til Evrópu síðan miðjan mars nema í sérstökum tilvikum - ekki frekar en nokkur önnur þjóð utan Evrópusambandsins og Schengen. 

Það má segja að þarna hafi dæmið snúist við frá því í mars, þegar Donald Trump forseti Bandaríkjanna bannaði ríkisborgurum innan Evrópusambandsins að koma til Bandaríkjanna til að vernda landið fyrir veirunni. Þá höfðu um 1.100 tilfelli greinst í landinu en nú eru þau yfir 2,3 milljónir. 

Blaðið segir að staðfesti Evrópusamandið þessa ákvörðum verði það mikið áfall fyrir stöðu Bandaríkjanna á heimsvísu. En það hefði líka veruleg áhrif á efnahaginn í Evrópu þar sem milljónir Bandaríkjamanna ferðast þangað árlega. New York Times hefur eftir ónafngreindum embættismönnum að vísindin ráði því hverjum verði hleypt inn og engar undantekningar verðir gerðar fyrir Bandaríkin. Tekið er þó fram að listinn verði endurskoðaður á tveggja vikna fresti. 

Listinn verður formlega kynntur í byrjun næstu viku. Ríki Evrópusambandsins verða ekki formlega bundin af honum en Evrópusambandið hefur gefið út að ef eitthvert ríki virði hann ekki, þurfi aftur að taka upp eftirlit á innri landamærum ríkjanna.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV