Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Allt þarf að ganga upp fyrir mánudag

24.06.2020 - 22:18
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór - RÚV
Stjórnendur Icelandair þurfa að ljúka samningum við flugfreyjur sínar, samningum við lánardrottna félagsins, viðræðum við íslensk stjórnvöld og viðræðum við flugvélaframleiðandann Boeing vegna Max-vélanna fyrir mánudag. Þá verður tekin ákvörðun um framtíðarstarfsemi Icelandair. Ekki verður unnt að fara í hlutafjárútboð fyrr en óvissu um þessi mál verður eytt en útboðið er forsendan fyrir áframhaldandi starfsemi félagsins.

„Það er margt sem gengur ágætlega og annað sem gengur hægar eins og oft er í svona stórum og flóknum verkefnum en við erum bjartsýn og stefnum á að klára þessa verkþætti sem við þurfum að klára á mánudaginn. Það er okkar markmið og það er eitthvað sem verður að klárast,“ -segir Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair.

En hvað gerist ef þetta gengur ekki?

„Þá hugsanlega þurfum við að fara í eitthvað annað plan. Þetta hefur verið plan númer eitt, tvö og þrjú hjá okkur, það er að ríkið komi með lánalínu, ábyrgist lánalínu og á sama tíma söfnum við hlutafé en það er að þeirri forsendu gefinni að við náum árangri í öllum þessum fjórum verkþáttum og ef eitthvað af þessu er ekki að ganga upp þá er heildarplanið ekki að ganga upp og þá þurfum við að fara í eitthvað annað plan.“

Hann segir aðrar leiðir of áhættusamar fyrir íslenskt samfélag.

„Það er engin leið að hugsa allt út í því og plana fyrir öllum óvissuþáttum. Þannig að sú leið sem við höfum verið að vinna eftir, að okkar fyrirtæki vaxi og dafni, það er langbesta lausnin fyrir þjóðfélagið og okkar hagsmunaaðila alla og þess vegna höfum við verið að vinna út frá því en ef það gengur ekki eftir þá þurfum við að skoða eitthvað annað.“

Bogi segir að bókunarstaðan sé ágæt á þeim leiðum sem verið er að fljúga. Nú er flogið á ellefu áfangastaði, tíu í Evrópu og einn í Bandaríkjunum. 
Hann segir að umhverfið sé mjög kvikt þessa dagana og gera þurfi breytingar daglega. Ný landamæri opnist og tafir verði á opnun annarra. Til stóð að auka tíðni ferða vestur um haf um næstu mánaðamót en því hafi nú verið frestað. Þó stendur enn til að hefja farþegaflug til Seattle á næstu vikum.

„Við finnum fyrir miklum áhuga á Íslandi sem áfangastað í þessum löndum sem við erum að fljúga til þannig að bókunarstaðan er ágæt og við erum ekki að fljúga flug sem við töpum á þannig að við erum að horfa til þess að fljúga í hagnaði og stýrum leiðakerfinu eftir því og bókunarstaðan í þessum flugum er allt í lagi.“