Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áhyggjuefni að fjármálaráðherra segi loforð marklaus

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Það vekur áhyggjur að fjármálaráðherra lýsi því yfir að loforð sem stjórnvöld hafi gefið í tengslum við lífskjarasamning séu í raun marklaus, segir forseti Alþýðusambandsins. Sambandið vill fund með stjórnvöldum um samninginn. Bæði ráðherra og verkalýðshreyfing hafa sagt að forsendur lífskjarasamnings séu brostnar.  

Stjórnvöld hafa ekki staðið við sinn hluta lífskjarasamninganna, segir í ályktun sem Miðstjórn Alþýðusambandsins sendi frá sér í dag. Það sem út af standi séu aðgerðir í húsnæðismálum, verðtryggingu, mansali og félagslegum undirboðum og sektarákvæði vegna kjarasamningsbrota.

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambandsins, segir brýnt að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar. Viðbúið sé að margir verði án vinnu í haust. Þá sé það áhyggjuefni ef hið opinbera ætli að skera mikið niður.

„Og bendum á það að við þurfum að hafa þolinmæði til þess að skulda þessa kreppu og ekki fara harðar niðurskurðaraðgerðir sem þýðir skerta þjónustu eða aukin útgjöld fyrir einstaklinga og heimili í mennta- og velferðakerfi,“ segir Drífa.

Nú var dálítið harður tónn hjá fjármálaráðherra í gær og hann sagði að honum þætti það ekki áhugaverð spurning að ræða hvort forsendur lífskjarasamnings væru brotnar og talaði um að nú þyrftu allir að taka höndum saman. Hver eru þín viðbrögð við þessu?

Við skulum þá taka höndum saman um að verja hagsmuni fólks, verja framfærslu fólks og verja húsnæðisöryggi og annað öryggi fólks. Við erum alveg til umræðu um það. En það vekur vissulega áhyggjur þessi tónn hjá fjármálaráðherra þar sem hann lýsir því yfir að þau loforð sem stjórnvöld hafi gefið hingað til séu í rauninni marklaus,“ segir Drífa.

Kom þér á óvart að hann skyldi taka svona til orða?

„Það kom mér á óvart já,“ segir Drífa.