Ágreiningsefnum hefur fækkað í deilu FFÍ og Icelandair

Mynd: Kristín Sigurðardóttir / RÚV
Samninganefndir flugfreyja og Icelandair sátu við samningaborðið hjá ríkissáttasemjara fram yfir miðnætti í nótt og héldu áfram núna í hádeginu. Á mánudaginn hefst hlutafjárútboð í Icelandair og fyrir þann tíma höfðu stjórnendur félagsins einsett sér að ljúka samningum við stjórnvöld og stéttarfélög. Ríkissáttasemjari segir að leyst hafi verið úr mörgum ágreiningsefnum á löngum fundi í gær.

Samninganefndirnar voru komnar í hús þegar Fréttastofu bar að garði um klukkan hálf tólf. Stuttu eftir klukkan tólf settist ríkissáttasemjari á fund með flugfreyjum. 

Fréttastofa náði tali af Aðalsteini Leifssyni ríkissáttasemjara stuttu fyrir þann fund. Hann segir ekki unnt að svara því hvort samningar eru á næsta leyti.

„Það sem ég get sagt er að samninganefndirnar hafa lagt mjög hart að sér. Við vorum hér í eina sextán tíma í gær og síðan fór fólk heim til að hvíla sig. Samtalið er mjög virkt og gott en að sama skapi hef ég sagt það áður og segi það aftur að þetta eru gríðarlega flóknar og þungar viðræður,“ segir Aðalsteinn.

Náðist eitthvað að fækka ágreiningsefnum á fundinum í gær?

„Þetta eru mjög mörg málefni sem eru undir og þetta er flókið. En já, ég held að ég geti sagt það að álitaefnunum hafi heldur fækkað. En það er þannig í svona viðræðum að það er ekkert um samið fyrr en um allt er samið. Þannig að endingu þarf að horfa á alla hluti í samhengi,“ segir Aðalsteinn.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi