Vilja losna við brunarústir í Hrísey

23.06.2020 - 08:22
Mynd með færslu
 Mynd: Linda María Ásgeirsdóttir - Aðsend mynd
Hríseyingar eru ekki sáttir við að brunarústir Hrísey Seafood hafi ekki verið hreinsaðar. Bruninn í lok maí hafi verið nógu slæmur þótt þeir þurfi ekki að horfa upp á óhreinsaðar rústirnar í lengri tíma.

Byggingar Hrísey Seafood eyðilögðust í miklum eldsvoða 28. maí. Nú, tæpum mánuði síðar, hefur enn ekki verið lokið við að hreinsa til eftir brunann.

„Það er að vísu búið að taka mest allan fiskinn en það er náttúrulega enn þá hellings fiskur inni í rústunum þannig að það fer ekkert fyrr en það er búið að hreinsa þetta og það er alveg hræðileg lykt af þessu eins og þið getið rétt ímyndað ykkur“ segir Linda María Ásgeirsdóttir sem býr í Hrísey. Bruninn einn og sér hafi verið nógu erfiður fyrir íbúa þótt rústirnar blasi ekki við um lengri tíma. 

„Ömurlegt að bjóða fólki upp á þetta“

Nú er frítt í hríseyjarferjuna Sævar sem er átak hjá Akureyrarbæ til að reyna að fjölga ferðamönnum. Um 3500 manns hafa farið til Hríseyjar síðustu 10 daga og rústirnar blasa við þegar siglt er inn að höfninni. Linda María segir ömurlegt að bjóða fólki upp á þetta. Hún hafði sambandi við TM tryggingar fyrir sjómannadaginn og lýsti stöðunni;  „og þá voru svörin þau að það er ekkert hlaupið að því að fara með vélar út í Hrísey. Ég hlæ nú bara að því vegna þess að það var malbikað hérna núna í júní“.

Aðeins hluti byggingarinnar tryggður

Björk Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri tjónaþjónustu hjá TM tryggingum, segir í skriflegu svari að unnið sé að hreinsun. Hún hafi tekið langan tíma þar sem hluti þess sem brann hafi verið tryggður en hluti ekki. Hreinsunarstarf þurfi að fara fram í ákveðinni röð og málið sé unnið í samstarfi við eiganda hússins. Stefnt sé að því að ljúka hreinsun á næstu vikum. Ekki náðist í eiganda Hrísey Seafood. Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri segir að bærinn hafi ýtt á eftir hreinsun. Það sé alls ekki nógu gott að þetta taki svona langan tíma. 

„Það er kannski einhver smáborgaraháttur í manni en ég er ansi hrædd um það að ef þetta væri annars staðar, einhvers staðar miðsvæðis í einhverju bæjarfélagi á fasta landinu þá væri þetta ekki svona í dag“ segir Linda María.

 

 

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi