Tökur á myndinni fóru að stórum hluta fram á Húsavík. Myndin er hugarfóstur gamanleikarans Will Ferrell og fer hann sjálfur með aðalhlutverkið í myndinni ásamt þeim Rachel McAdams, Pierce Brosnan, Dan Stevens og Demi Lovato. Ferrell og McAdams leika þau Lars Erickssong og Sigrit Ericksdottir, fulltrúa Íslands í Eurovision söngvakeppninni.
Myndin kemur út á Netflix á föstudaginn en á fundi fjölskylduráðs Norðurþings í vikunni var samþykkt að bjóða bæjarbúum á „heimsfrumsýningu“ á myndinni. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er allt til reiðu, en einungis er beðið eftir að Netflix gefi grænt ljós á sýninguna.
Fáist það verður myndin sýnd í tvígang á föstudaginn. „Eftir erfiðan og snjóþungan vetur er gaman að geta boðið bæjarbúum upp á smá skemmtun. Það er allt til reiðu af okkar hálfu og vonandi næst góð lending hjá Netflix,“ segir Hinrik Wöhler, forstöðumaður Húsavíkurstofu sem stendur fyrir viðburðinum.
Stiklu úr myndinni má sjá hér að neðan.