Vara ekki lengur við ónauðsynlegum ferðum til Evrópu

23.06.2020 - 17:49
Mynd með færslu
 Mynd: Magnús Atli Magnússon - RÚV
Íslensk stjórnvöld telja ekki lengur ástæðu til að vara fólk við ónauðsynlegum ferðum til Evrópu þar sem kórónuveirufaraldurinn er í rénun í Evrópu. Hins vegar er fólk enn varað við ónauðsynlegum ferðum til landa utan Evrópu, bæði vegna ferðatakmarkana og vegna sóttvarnarákvæða sem kunna að vera í gildi.

Landamæri flestra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu hafa opnast Íslendingum og því hafa íslensk stjórnvöld endurskoðað ferðaráð sín. Ekki er lengur varað við ónauðsynlegum ferðalögum til þeirra ríkja Evrópu sem eru opin Íslendingum. Þó tekur utanríkisráðuneytið fram að aðstæður geta breyst hratt. Flest samstarfsríki Íslands hafa tekið fram að ef það gerist verður ekki unnið að heimflutningum með sama hætti og í vor þegar heimsfaraldurinn skall á. Því geta Íslendingar í útlöndum ekki treyst á sömu aðstoð íslenskra stjórnvalda og í vor ef aðstæður breytast.

Rúmir þrír mánuðir eru liðnir síðan stjórnvöld hvöttu landsmenn til að hætta við ónauðsynleg ferðalög til útlanda og snúa heim ef þeir væru staddir í útlöndum. Á þeim tíma reyndu þúsundir Íslendinga að komast heim, hvort sem er eftir lengri eða skemmri dvöl í útlöndum. Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins aðstoðaði fjölda fólks og efnt var til sérstakra flugferða eftir að flugfélög hættu reglubundnu flugi. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi