Undirbúningur smíði nýja skipsins hafinn

23.06.2020 - 15:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Undirbúningur fyrir útboð á smíði nýs rannsóknaskips er kominn vel á veg. Stefnt er að því að bjóða verkið út í sumar, segir Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar.

Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu árið 2018 um smíði nýs rannsóknaskips fyrir stofnunina. Með tillögunni var lagt til að smíðin yrði fjármögnuð með sérstöku viðbótarframlagi af fjárlögum áranna 2019-2021. Áætlað var að heildarkostnaður við smíðina yrði þrír og hálfur milljarður króna. Sigurður segir að nýja skipið verði sennilega tilbúið eftir tvö ár verði verkið boðið út í sumar. 

Hafrannsóknastofnun á tvö rannsóknaskip, Árna Friðriksson og Bjarna Sæmundsson. Árni Friðriksson, sem sést á myndinni hér að ofan, var smíðaður árið 2000 en Bjarni Sæmundsson er fimmtugur í ár. Sigurður segir að nýja skipið leysi þann síðarnefnda af hólmi. 

Verkefni Hafrannsóknastofnunar eru margvísleg og þau hafa breyst í áranna rás. Í þingsályktunartillögu um smíði nýja skipsins kemur fram að miklar breytingar hafi orðið á umhverfi sjávar samhliða hlýnandi loftslagi. Norðlægar fisktegundir hörfa norðar á meðan suðlægar tegundir skjóta upp kollinum. Í tillögunni segir að miklar áskoranir felist í að vakta umhverfisþætti vistkerfa og breytingar í afkomu einstakra stofna. Einnig þarf að fylgjast vel með kolefnisbúskap, súrnun sjávar og mengun. 

Sigurður segir að nýja skipið eigi eftir að henta vel til verkefna Hafrannsóknastofnunar. Það verði stærra en skipin tvö sem nú eru í eigu stofnunarinnar og ráði við allar úthafsmælingar. 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi