Trump sagður öskuillur vegna lélegrar mætingar

epa08499458 US President Donald J. Trump speaks during a rally inside the Bank of Oklahoma Center in Tulsa, Oklahoma, USA, 20 June 2020. The campaign rally is the first since the COVID-19 pandemic locked most of the country down in March 2020.  EPA-EFE/ALBERT HALIM
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti geldur nú fyrir afneitun sína á afleiðingum kórónaveirufaraldursins. Faraldurinn, sem er hvergi nærri lokið, er sagður geta orðið til þess að forsetinn verði af uppáhalds baráttuaðferð sinni — háværum og mannmörgum stuðningsmannafundum.

Þetta segir CNN sjónvarpsstöðin sem bendir á að það hafi verið stuðningsmannafundirnir sem áttu hvað stærstan þátt í pólitísku risi Trump á sínum tíma og að þeir hafi átt að vera mikilvægur þáttur í baráttu hans fyrir endurkjöri.

Slíkur fundur var haldinn í Tulsa Oklahoma á laugardagskvöld og hafði Brad Parscale, kosningastjóri forsetans, farið mikinn á samfélagsmiðlum vikuna á undan og greint frá miklum áhuga á fundinum. 

Salurinn sem tekur 19 þúsund manns var hins vegar hvergi nærri fullur og enginn þörf reyndist fyrir svið sem búið var að koma fyrir utan dyra svo fleiri gætu fylgst með.

CNN segir Trump hafa verið öskuillann vegna þess hve fáir mættu á fundinn í Oklahoma. Fundurinn var sá fyrsti sem forsetinn hélt eftir að kórónaveirufaraldurinn reið yfir Bandaríkin og átti að marka endurkomu hans í kosningabaráttuna. 

Yfir 2,3 milljónir Bandaríkjamanna hafa nú greinst með COVID-19 í Bandaríkjunum og nærri 122 þúsund eru látnir af völdum sjúkdómsins. 

Vonir Trump um að hann gæti nú tekið til við að halda slíka stuðningsmannafundi á ný eru sagðar hafa fengið á sig frekara högg eftir að kórónaveiran greindist hjá átta starfsmönnum framboðsins og tveimur leyniþjónustufulltrúum sem voru á fundinum.

Áður höfðu læknar lýst yfir áhyggjum af að slíkur fundur sem haldinn væri innandyra gæti leitt til fjölda smita.

CNN segir skipuleggjendur framboðs Trumps nú vera að hugleiða að boða til fleiri og smærri funda. Slík ákvörðun er hins vegar sögð koma illa við egó Trumps, sem kann því illa að minnka við sig þar sem slíkir viðburðir veki ekki samskonar baráttuanda hjá stuðningsmönnum hans.
 

 

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi