Trump framlengir bann á nýjum atvinnuleyfum

23.06.2020 - 08:48
President Donald Trump speaks during a roundtable discussion about "Transition to Greatness: Restoring, Rebuilding, and Renewing," at Gateway Church Dallas, Thursday, June 11, 2020, in Dallas.(AP Photo/Alex Brandon)
 Mynd: AP
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur framlengt bann við útgáfu nýrra atvinnu- og dvalarleyfa í Bandaríkjunum út árið. Tilgangurinn er að draga úr atvinnuleysi meðal Bandaríkjamanna.

 

Covid 19 faraldurinn hefur gert það að verkum að atvinnuleysi hefur náð áður óþekktum hæðum í Bandaríkjunum. Af þeim sökum ákvað Trump fyrir tveimur mánuðum að hætta tímabundið útgáfu nýrra atvinnuleyfa fyrir þá sem ekki eru bandarískir ríkisborgarar.  Þetta hefur átt við um þau grænu kort sem heimila dvö til langframa, sérstaka áritun fyrir sérfræðinga - svokölluð H-1B áritun - sem hefur meðal annars nýst tæknimenntuðu fólki og áritun til skammtímadvalar sem nýtist háskólanemum og þeim sem vinna sem au pair, þ.e. við barnagæslu á heimilum.

Þessi tilskipun átti að renna út í gær, en í gærkvöld var tilkynnt að hún myndi gilda út þetta ár. Að sögn embættismanns þýðir þetta að 525 þúsund störf losna fyrir bandaríska ríkisborgara. Á meðan eigi að breyta kerfinu fyrir sérfræðingana á þann hátt að erlendir starfsmenn séu ekki í beinni samkeppni við þá bandarísku. Verðmætustu starfsmennirnir hafi forgang inn í landið.

Samtök um borgaralegt frelsi í Bandaríkjunum hafa gagnrýnt þessa ráðstöfum og segja að þarna sé verið að nýta sér faraldurinn til að herða á innflytjendastefnu. 

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi