Tók um þrjá tíma að skima 300 farþega

23.06.2020 - 14:07
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Það tók um þrjá tíma að skima þrjú hundurð farþega sem komu með Norrænu til Seyðisfjarðar í morgun. Um 460 farþegar komu með skipinu, þrisvar sinnum fleiri en komu með skipinu í síðustu viku. Hluti farþega var frá Færeyjum og Grænlandi þurfa því ekki að fara í skimun. 

„Farþegar fara sína leið en allir fá leiðbeiningar hvort sem þeir fara í sýnatöku eða ekki um hvernig þeir eiga að haga sér. Þeir eiga að forðast samneyti við aðra eftir bestu getu og svo framvegis. Þeir fylgja því vonandi,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi. 

Íbúar hugi sérstaklega að smit- og sóttvörnum

Búið var að skima alla um hádegisbil. Sýnin fara með farþegavél í greiningu frá Egilsstöðum um klukkan hálf fimm. „Ef allt gengur upp verða þau komin til Íslenskrar erfðagreiningar fyrir klukkan sjö. Þá ætti niðurstaða að liggja fyrir seinna í kvöld,“ segir Kristján Ólafur.

Lögreglan á Austurlandi segir í tilkynningu að í ljósi þess hversu margir ferðamenn eiga leið um fjórðunginn sé mikilvægt að íbúar gæti sérstaklega að smitvörnum og hreinsi snertifleti reglulega. 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi