Þrastarfjölskylda í glugga mannanna

Þrastarhreiðrið var alveg upp við gluggann - Mynd: Heiða Björg Hilmisdóttir / Heiða Björg

Þrastarfjölskylda í glugga mannanna

23.06.2020 - 16:25

Höfundar

Þrastarhjón nýttu nótt eina fyrr í vor til að byggja sér hreiður. Það var í góðu tré og virtist vera í góðu skjóli. Þegar birti almennilega til horfðu þau í augun á furðu lostinni reykvískri mannafjölskyldu. Hreiðrið var alveg upp við gluggann á húsinu þeirra. Í stað þess að hætta við allt saman ákváðu þrestirnir að halda hreiðrinu. Kellann verpti eggjum sem svo klöktust. Innandyra naut fólkið þess að vera í návígi við fiðruðu fjölskylduna og fékk stórkostlega innsýn í líf og uppeldi unganna.

„Við vorum mjög tilfinningalega tengd þessu allan tímann og ekki síst eftir að ungarnir komu,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir en hún er húsfreyja fjölskyldunnar í Sæviðarsundi. Rætt var við hana í Samfélaginu á Rás 1. „Ég hef aldrei fylgst svona vel með ungum koma úr eggi. Þeir eru ekkert eins og ungar, frekar eins og liggjandi líffæri!“

Fjölskyldan sem er fimm manna naut þess að fylgjast með en tók á sama tíma mikið tillit til þrastanna, leyfði þeim að fá gott næði og frið til að sinna sínu. Meira að segja heimiliskötturinn hafði sig hægan. „Hann er nú frekar kjarklítill og hefur verið lítið í fuglaveiðum en engu að síður fannst þrastapabbanum betra að halda honum fjarri þannig að kötturinn mátti varla kíkja hérna út og þá var farið í hann bara eins og kría,“ segir Heiða. Aðrir íbúar fengu að fara um óáreittir, aðeins kötturinn gamli, sem var eitt sinn villiköttur fékk yfir sig viðlíka trakteringar.  „Ég held að hjartað í honum hafi ekki stækkað við þessa lífsreynslu,“ segir Heiða.