Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir vanda SÁÁ víst snúast um peninga

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Þetta snýst um stóran rekstrarreikning. Það eru mikil útgjöld hjá sjúkrahúsinu og það sýnir hvert stefnir í fjármálunum. Þetta sagði Þórarinn Tyrfingsson í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

57 starfsmenn á meðferðarsviði SÁÁ sendu í gær frá sér harðorða yfirlýsingu þar sem þeir lýstu því yfir að þeir vildu ekki fá Þórarinn aftur sem formann samtakanna. 

Kvaðst Þórarinn sannfærður um að það sé ekki meirihluti starfsmanna SÁÁ sem standi að yfirlýsingunni.

Víðir Sigrúnarson yfirlæknir sagði í samtali við fréttastofu í gær að þrír fjórðu hlutar starfsmanna meðferðarsviði hefðu undirritað yfirlýsinguna og að málið snerist ekki um peninga. Sagði í yfirlýsingunni að það snúist um „yfirgengilegt ofbeldi í samskiptum, vanvirðingu, undirróður og valdabaráttu manna sem geta ekki sleppt tökunum á gömlum tímum.“

Þórarinn segir málið þvert á móti snúast um fjármuni. „Það þarf að draga saman og það er spurning hver á að stýra því,“ sagði hann. Það sé yfirlækni sjúkrahússins á Vogi sem beri að draga úr kostnaði á meðferðarsviði til að stefna eignum SÁÁ ekki í voða. 

Segir starfsmenn ekki vilja fara að lögum SÁÁ

Sagi Þórarinn framkvæmdastjórn samtakanna, sem hann eigi ekki sæti í, hafa sagt rekstur Vogs hafa farið hallandi frá því Valgerður Rúnarsdóttir tók við starfi forstjóra sjúkrahússins. „Það er augljóst að þetta snýst um fjármuni,“ bætti hann við.

Sagði Þórarinn faglegar deilur um meðferð sjúklinga hins vegar eiga sinn vettvang i fagtímaritum.

Starfsmennirnir hafi gert uppreisn gegn stjórn samtakanna og vilji ekki fara að lögum SÁÁ. „Þetta snýst ekki um neitt annað í mínum huga,“ sagði hann.
Málið þurfi nú að leysa í sameiningu á aðalfundi samtakanna.