Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Renna ekki blint í sjóinn eins og í fyrri aðgerðaáætlun

Mynd: Samsett mynd / RÚV
Stjórnvöld kynntu í dag uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, útgáfan hefur tafist ítrekað. „Þó svo áætlunin að hafi dregist höfum við samt sem áður verið að setja aðgerðir, hverja á fætur annarri í framkvæmd,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra. Hann getur ekki svarað því hversu miklum samdrætti stjórnvöld hafa þegar náð. Tæpir sjö milljarðar fylgdu áætluninni árið 2018 en nú eru þeir níu. Þá er eftirfylgni með aðgerðum bætt.

Nýja aðgerðaáætlunin er ólík þeirri fyrri frá 2018 að því leyti að þar er lagt mat á hvaða áhrif hver aðgerð hefur á útblástur gróðurhúsalofttegunda. 

Spegillinn spurði umhverfisráðherra nánar um hvernig og hvenær ætti að ná markmiðunum. Hlýða má á viðtalið við Guðmund Inga í spilaranum hér fyrir ofan. 

Útlit fyrir að markmið náist og gott betur

Stjórnvöld munu standa við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum og gott betur, þau munu ganga lengra en alþjóðlegar skuldbindingar kveða á um og á næstu árum verður 46 milljörðum varið til loftslagsaðgerða í fjármálaáætlun. Þetta er fullyrt í uppfærðri aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum sem kynnt var á blaðamannafundi í dag, eftir að hafa dregist ítrekað síðustu níu mánuði. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, stýrði fundinum. „Ég myndi segja að stóru tíðindin í þessari áætlun eru þau að við teljum okkur geta náð þeim markmiðum sem við settum okkur. Þar renndum við í raun svolítið blint í sjóinn þegar við kynntum þetta í Austurbæjarskóla 2018 en nú segja útreikningar okkar vísindamanna að við munum geta staðið við okkar skuldbindingar.“ Raunar telja stjórnvöld sig geta gert meira en það.

Repja og rafmagn

Katrín talaði um áhuga og frumkvæði atvinnulífsins í loftslagsmálum og sagðist full vonar þó verkefnið væri um margt ógnvænlegt. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði ívilnanir og hvata hafa orðið til þess að breyta ferðavenjum. Fólk sé farið að reka erindi sín á rafhlaupahjólum. Nú væri komið að því að því að hefjast handa í sjávarútveginum, í samstarfi við geirann. Sigurður Ingi Jóhannesson, samgönguráðherra, horfir til þess að skipin gangi á repjuolíu eða rafmagni. Hann var bjartsýnn á fundinum. „Það er áhersla á orkuskipti eins og við þekkjum, nú þegar eru 10% fólksbíla í umferð vistvæn og það sem af er ári hafa meira en 50% nýskráðra fólksbíla verið vistvænir. Sendibílum sem ganga fyrir rafmagni fjölgar einnig mjög hratt og á síðustu árum hefur losun bíla sem ganga fyrir hefðbundnu eldsneyti dregist saman um þrjátíu prósent þannig að það er margt sem leggst á sveif með okkur í þessu og alveg ljóst að fólkið í landinu er að leggja sitt af mörkum til þess að loftslagsmarkmiðin náist.“ 

Mat sérfræðinga

Í gömlu útgáfunni frá 2018 var að finna 34 fjármagnaðar aðgerðir, gallinn var að sumar voru ekki nógu vel útfærðar. Umhverfisstofnun gat ekki tekið þær með í reikninginn þegar hún lagði mat á loftslagsávinning aðgerða til framtíðar. Þá hafði ekki verið metið hversu miklum árangri aðgerðirnar myndu skila fyrir árið 2030. Úr þessu er bætt í uppfærðri útgáfu. Af 48 aðgerðum var hægt að meta fyrirhugaðan árangur af 23, til stendur að meta árangur af 16 í viðbót en 9 var ómögulegt að meta, það eru til dæmis verkefni sem lúta að fræðslu. Matið var í höndum sérfræðinga umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Umhverfisstofnunar og teymis vísindafólks við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.

Niðurstaðan er sú að stjórnvöld eigi eftir að standa við markmið sitt og gott betur, í stað þess að losun minnki um 29% millli áranna 2005 og 2030, er búist við því að hún minnki um að minnsta kosti 35%. Stjórnvöld setja markið á 40%. 

Fimmtán nýjar aðgerðir

Eins og í fyrri útgáfu er mest áhersla lögð á orkuskipti í samgöngum og að binda kolefni í mýrum og skógum. Samtals eru aðgerðirnar nú 48 en í skýrslunni voru kynntar 15 nýjar. Þar á meðal föngun kolefnis frá stóriðju, nautgripafóður sem minnkar metanlosun, loftslagsvæn opinber fjármál, aukna innlenda grænmetisframleiðslu og vistvæna bílaleigubíla. Margar nýju aðgerðanna eru sagðar til komnar eftir samráð við hagsmunaaðila. 

Nýja aðgerðaáætlunin er aðgengileg á síðunni co2.is, þar á að uppfæra hana reglulega. Því verður hún líklega ekki aftur óbreytt í tæp tvö ár. Áhugasamir hafa þriggja mánaða frest til að skila um hana athugasemdum í samráðsgátt stjórnvalda.