Lagið Sólarsamba, sem hljómar úr viðtækjum víða um land þessa dagana, fjallar um þann árstíma sem flestir Íslendingar þekkja og elska, þó deila megi um hvort hann sé árlegur eða sjaldgæfari. En alltaf vekur það sömu rífandi lukku þegar sólin sleikir berar axlir í görðum, hýrnar yfir þeim sem sjaldan stekkur bros á vör og fólk stígur dans af einskærri kæti yfir sumrinu sem stundum lætur sjá sig. Ábreiðan hefur vakið mikla lukku og situr nú á toppi vinsældarlista Rásar 2. GÓSSið ætlar að fylgja laginu eftir með árlegri tónleikahringferð um landið, sem hefst eins og síðustu ár í Bæjarbíói Hafnarfirði.