Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Mig langaði ógeðslega mikið að vera Magga Gauja“

Mynd: ÁE / Álfheiður Erla

„Mig langaði ógeðslega mikið að vera Magga Gauja“

23.06.2020 - 16:15

Höfundar

Vinirnir í þríeykinu GÓSS sendu nýverið frá sér ábreiðu af laginu Sólarsamba sem feðginin Maggi Kjartans og Margrét Gauja gerðu ódauðlegt í Söngvakeppninni 1988. Þau eru á leið í árlega hringferð um landið að bera út fagnaðarerindi sólarinnar.

Lagið Sólarsamba, sem hljómar úr viðtækjum víða um land þessa dagana, fjallar um þann árstíma sem flestir Íslendingar þekkja og elska, þó deila megi um hvort hann sé árlegur eða sjaldgæfari. En alltaf vekur það sömu rífandi lukku þegar sólin sleikir berar axlir í görðum, hýrnar yfir þeim sem sjaldan stekkur bros á vör og fólk stígur dans af einskærri kæti yfir sumrinu sem stundum lætur sjá sig. Ábreiðan hefur vakið mikla lukku og situr nú á toppi vinsældarlista Rásar 2. GÓSSið ætlar að fylgja laginu eftir með árlegri tónleikahringferð um landið, sem hefst eins og síðustu ár í Bæjarbíói Hafnarfirði.

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Guðmundsson - Aðsent
Tríóið GÓSS er á leið í sínu fjórðu hringferð

Sigríður segir að það hafi verið Guðmundur sem stakk upp á að þau kæmu sér og þjóðinni í sumarskap með Sólarsambanu en hún hafi sjálf gert sér grein fyrir að það væri í raun langþráður draumur að rætast. „Ég var að segja um daginn að ég man eftir að langa ógeðslega mikið að vera Magga Gauja. Að vera lítil stelpa sem tæki þátt í Eurovision,“ segir Sigríður. Sigurður man eftir játningunni. „Og ef minnið svíkur mig ekki hafði þetta lag borist í tal fyrr en fékk ekki alveg að vera með þá. En við verðum öll alveg Margrét Gauja inni í okkur.“

Sem fyrr segir er hópurinn á leið í hringferð um landið í fjórða skipti og er eftirvænting mikið. „Þetta er eitt það gáfulegasta sem maður getur gert á sumrin, að halda sér á Íslandi og fara hringinn. Helst tvo,“ segir Sigurður. En í þetta skipti ætla þau ekki að láta nægja að taka hljóðfærin með heldur verður einnig myndavél í farangrinum. „Við ætlum að freista þess að gera smá heimildarþátt um ævintýrið.“

Á ferðalaginu fara þau vítt og breitt um landið og eiga viðkomu meðal annars í Þórsmörk, á Patreksfirði og í Berufirði. „Það er gaman að gera þetta í fjórða skipti, maður fer ekki bara á nýja staði heldur á sömu staði að hitta fólk aftur. Fólk kemur ár eftir ár og við kynnumst heimamönnum og eignumst vini.“

Rætt var við Sigurð og Sigríði í Popplandi á Rás tvö.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Sökuð um að smyrja landsbyggðina með COVID-19

Popptónlist

Eins íslenskt og indælt og það verður