Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Miðflokksmenn hættu umræðu um samgönguáætlun

Mynd: Skjáskot / RÚV
Annarri umræðu um samgönguáætlanir til næstu fimm og fimmtán ára lauk nú í hádeginu. Þá fluttu þingmenn Miðflokksins sínar síðustu ræður. Umræðan hafði þá staðið í 46 klukkustundir. Hún stóð yfir fjóra daga í síðustu viku og var haldið áfram í gær og í dag. Umræðan stóð til klukkan tvö í nótt. Miðflokksmenn hafa varið miklum tíma í að gagnrýna áform um Borgarlínu og ítrekuðu þá gagnrýni í lok umræðunnar.

„Enn er margt órætt í þessu máli en í trausti þess að vilji sé til að ráðast í ákveðnar úrbætur höfum við ákveðið að sýna viðleitni með því að flytja aðeins fjórar ræður í viðbót þótt það þýði að margar góðar ræður verði aldrei fluttar,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í upphafi ræðu sinnar í hádeginu.

Sigmundur og fleiri þingmenn Miðflokksins fóru hörðum orðum um Borgarlínu og meirihlutann í borgarstjórn Reykjavíkur í síðustu ræðum sínum um málið.

Þingályktunartillögur um samgönguáætlun voru lagðar fram undir lok nóvember og fyrri umræða stóð í þrjár klukkustundir 4. desember. Eftir það gekk málið til umhverfis- og samöngunefndar sem fékk 72 umsagnir og erindi vegna þess. 

Fjórir kvöld- og næturfundir

Önnur umræða hófst á mánudag í síðustu viku. Það var rætt til miðnættis tvo daga og til að ganga fjögur eftir miðnætti þriðja daginn. Að auki var efnt til sérstaks þingfundar á laugardag til að halda umræðunni áfram. Þingmenn Miðflokksins fluttu hverja ræðuna á fætur annarri en lítið bar á þingmönnum annarra flokka. Starfsáætlun Alþingis var felld úr gildi í gærmorgun þar sem þá þótti ekki ljóst að hægt yrði að ljúka störfum Alþingis í þessari viku eins og stefnt hafði verið að.

Ræða félag um uppbyggingu í samgöngumálum

Þingmenn hófu rétt fyrir klukkan eitt umræðu um frumvarp um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

Fréttin hefur verið uppfærð.