María mey afmynduð í viðgerð

Mynd með færslu
Upprunalega útgáfa myndarinnar til vinstri. Vandræðalegar tilraunir til lagfæringar til hægri. Mynd: Cedida por Coleccionista - Europa Press 2020

María mey afmynduð í viðgerð

23.06.2020 - 05:52

Höfundar

Spænskir sérfræðingar í varðveislu listaverka óska eftir hertri löggjöf við endurbætur á eldri listaverkum. Misheppnuð tilraun til lagfæringar á þekktu málverki eftir barokk-listamanninn Bartolomé Esteban Murillo er kornið sem fyllti mælinn.

Málverkið er af Maríu mey og var í eigu listaverkasafnara í Valencia. Hann bað húsgagna-viðgerðarmann um að hreinsa verkið fyrir sig og greiddi honum 1.200 evrur fyrir, jafnvirði um 190 þúsund króna. Viðgerðarmanninum tókst vægast sagt illa til, og er andlit Maríu ekkert líkt því sem það var.

Málið þykir afar líkt því þegar eldra sóknarbarn kirkju í spænska bænum Borja reyndi að lagfæra fresku af Jesú Kristi sem Elias Garcia Martinez hafði málað. Lagfæringin, eða tilraunin til lagfæringar, vakti heimsathygli.

Mynd með færslu
 Mynd: cea + - Flickr.com

Guardian hefur eftir Fernando Carrera, prófessor við varðveislu og endurbætur á menningarverðmætum í Galisíuskóla, að mál á borð við þessi tvö sýni þörfina á vel þjálfuðum viðgerðarmönnum. Í báðum tilvikum hafi fólk með enga kunnáttu reynt fyrir sér, og í staðinn fyrir að laga verkin eyðilagt þau.

Menningarsaga Spánar í húfi

Nánast hver sem er getur tekið að sér að lagfæra eldri verk, samkvæmt lögum. Carrera spyr hvort fólk sé tilbúið til þess að láta hvern sem er framkvæma læknisaðgerð á sér, eða hvort fólk sé tilbúið að kaupa lyf af einhverjum sem ekki er apótekari. Þó viðgerðir á eldri verkum séu ekki jafn mikilvægar og læknisaðgerðir og lyf, segir Carrera nauðsynlegt að setja strangari reglur um viðgerðirnar. Þó ekki væri nema til þess að varðveita menningarsögu Spánar. Tími sé kominn til að fjárfesta í arfleifð þjóðarinnar, og áður en farið er að tala um kostnaðinn við það verður að sjá til þess að fólkið sem sér um endurbæturnar sé þjálfað til þess.

 

Tengdar fréttir

Pistlar

Freska verður ófreskja